Sunna Einarsdóttir er ein þeirra listamanna sem sýna verk sín á Goslokahátíðinni í ár, en þetta er í annað sinn sem hún er með sýningu á Goslokunum. Í ár sýnir hún sautján teikningar og þrjú málverk, fjölbreytt verk sem öll bera með sér sérstakan Vestmannaeyjafíling. „Verkin sem ég verð með á sýningunni núna í ár eru frekar fjölbreytt,“ segir Sunna. „Ég vildi ekki setja þá pressu á mig að halda mig við eitthvað ákveðið þema, heldur frekar að leyfa fjölbreytileikanum ráða för.“
Innblásturinn sækir hún bæði í náttúruna og nærumhverfið – sérstaklega í Eyjarnar sjálfar segir hún. „Ég er mjög dugleg að skoða dýr sem mér þykir falleg og hef verið þannig frá því ég var ung. En aðalinnblásturinn minn kemur frá Vestmannaeyjum – mér finnst gaman að teikna hluti og staði héðan.“ Aðspurð hvað einkenni stíl hennar segir hún hann einkennast af raunsæi, og segist hún aðallega teikna í raunverulegum stíl. Verkin hennar Sunnu verða til sýnis í Sagnheimum yfir hátíðina og hvetur hún fólk að líta við „það verður eitthvað fyrir alla þarna og ég hlakka til að sjá sem flesta“, segir hún að lokum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst