Níu lundar til Englands
28. mars, 2024
Mynd af Heimdalli, Loka, Gluggu og Vegg. Ljósmyndir/aðsendar

Líkt og kom fram hér á Eyjar.net í gær stendur til að flytja nokkra sjúka lunda frá sædýrasafni Sea Life Trust í Eyjum til Bretlands. Að sögn Þóru Gísladóttur, rekstrarstjóra Sea Life Trust í Vestmannaeyjum er verið að fara að flytja nokkra lunda til Cornwall í Englandi.

Höfum bara leyfi til að vera með ákveðin fjölda í athvarfinu okkar

„Í Cornwall er Selaathvarf í eigu Sea Life Trust og við vinnum mjög mikið og náið með þeim. Þau eru búin að útbúa glæsilegt útisvæði fyrir lundana sem eru að koma til þeirra og þeim á eflaust eftir að líða mjög vel þar.

Hugsunin er að þar sem við höfum bara leyfi til að vera með ákveðin fjölda af lundum í athvarfinu okkar og með tilkomu nýju lundanna sem komu til okkar eftir síðasta sumar kom upp sú staða að við erum búin að fylla þann kvóta. Sem þýðir það að þegar við fáum inn slasaðar lundapysjur næsta sumar þá getum við ekki tekið við þeim.

Því kom upp sú hugmynd að flytja lundana okkar yfir til vina okkar í Selaathvarfinu þar sem þau voru meira en lítið til í að taka við þeim. Útisvæðið er að verða klárt og er verið að leggja lokahönd á laugina þeirra og það bíða núna allir mjög spenntir eftir að fá þá til sín.“ segir Þóra.

Fimm fuglar eftir

Spurð um hvað eigi að flytja marga lunda út segir hún að það verði 9 lundar sendir út.

„Þeir hafa verið hjá okkur lengi og hafa myndað gott samfélag saman og því þótti ekki ráðlagt að stía þeim í sundur. Það eru þau: Þór, Freyja, Týr, Óðinn, Alma, Dísa, Stephen, Sigurbjörg og Karen sem fara út.“

Hvað verða þá margir eftir á safninu?

Það verða 5 fuglar eftir. Hann Moli, gleðigjafinn okkar, verður hjá okkur áfram. Fyrir þá sem ekki þekkja hann, þá er Moli stórskemmtileg langvía sem hefur það hlutverk að hjálpa starfsfólkinu að hafa hemil á lundahópnum okkar. Eða það er það sem Moli heldur að sé hans hlutverk. Einnig verða eftir lundarnir sem komu til okkar síðasta sumar þau Heimdallur, Loki, Glugga og Veggur. Ég hvet Eyjamenn til að koma og kynnast þeim.

Verða til frambúðar úti

Eiga þeir að vera þar eða stendur til að koma með þá aftur heim?

Lundarnir eiga eftir að verða þar til frambúðar. Þeir fá mun stærra svæði þarna úti og eiga eflaust eftir að spjara sig vel þarna. En við fáum reglulega fréttir af þeim og fáum að fylgjast með hvernig gengur og starfsfólkið fer reglulega út til að hjálpa ef þess er þörf og veita ráðgjöf.

Þarf mjög mörg leyfi

Þarf ekki leyfi fyrir slíka flutninga? Er búið að fá þau?

Jú það þarf mjög mörg leyfi og það er það sem við Courtney erum búnar að vera að vinna að síðustu mánuði.

Allir lundarnir voru örmerktir fyrir nokkrum dögum og við þurftum einnig að taka af þeim flensupróf og taka sýni fyrir Newcastle Disease. Dýralæknarnir okkar frá Selfossi, Sandra og Ásdís, voru svo frábærar að koma og aðstoða okkur við að gera heilsufarsskoðun á fuglunum þannig að núna eiga þau öll opinber heilbrigðisvottorð til að fara með út. Við höfum líka verið í góðu sambandi við MAST og fylgjum öllum leiðbeiningum frá þeim. Þau hafa sýnt okkur mikinn stuðning enda vilja allir að þetta gangi eins hratt og auðveldlega og hægt er. Lundarnir fara svo í síðustu heilsfarsskoðunina til þeirra á þriðjudaginn áður en við förum með þá í flug.

Náttúrustofnunin hefur gefið okkur útflutningsleyfi og mikinn stuðning og sendir liðinu okkar sínar bestu óskir. Einnig höfum við verið í samstarfi með TVG og Icelandair við að bóka flugið. Ég tala nú ekki um allt fólkið í Bretlandi sem er búið að vinna með okkur að því að tryggja að öllum reglugerðum sé fylgt og farið sé eftir leiðbeiningum. Við erum með sérfræðing í inn-og útflutningi dýra sem mun sækja lundana á flugvöllinn ásamt henni Emily okkar og þau keyra þeim í Selathvarfið í Cornwall. Þar verður tekið vel á móti þeim og bíða allir spenntir eftir nýju íbúunum.

Þóra hvetur alla til að koma við um páskana og kveðja lundana áður en þau halda af stað í ferðalagið. Hægt verður að fylgjast með þeim á facebooksíðu selaathvarfsins: https://www.facebook.com/cornishsealsanctuary.

lundar_sea_life_ads_min
Þór, Týr og Óðinn sem eru að fara með Mola

https://eyjar.net/lundar-sendir-til-bretlands-i-endurhaefingu/

Skoða blaðið á netinu
Forsida 12 Tbl 2024
12. tbl. 2024
Mest lesið
viðburðir
Fylgstu með

Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst