Óbyggðanefnd fellst ekki á beiðni ráðherra
22. febrúar, 2024
Þórdís_kolbrun_eyjar (1000 x 667 px) (1)
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir fjármála- og efnahagsráðherra. Mynd/samsett

Óbyggðanefnd tók beiðni fjármála- og efnahagsráðherra fyrir í vikunni um að nefndin endurskoði afstöðu sína og hefji að nýju málsmeðferð um eyjar og sker með þeim hætti sem ráðuneytið óskaði eftir í mars 2023.

Í morgun sendi óbyggðanefnd svarbréf til ráðuneytisins þar sem ekki er fallist á beiðnina, með þeim rökum sem þar greinir. Í því sambandi var einkum horft til þess að slíkt væri að mati nefndarinnar ekki til þess fallið að einfalda málsmeðferðina gagnvart hugsanlegum rétthöfum á svæði 12.

Eyjar.net sendi í gær fyrirspurn til Sigmars Arons Ómarssonar, framkvæmdastjóra óbyggðanefndar varðandi málið og fékk neðangreint svar.

Í bréfi frá fjármála- og efnahagsráðherra, sem barst nefndinni 16. febrúar, er þess óskað að óbyggðanefnd falli frá núverandi málsmeðferð á svæði 12, sem hófst 19. apríl 2023, og hefji nýja málsmeðferð á svæðinu með viðbótarþrepi skv. 10. gr. a. þjóðlendulaga.

Samkvæmt því ákvæði, sem var bætt í þjóðlendulögin árið 2020, var nefndinni heimilt að byrja málsmeðferðina á svæði 12 á því að skora á alla þá sem kalla til eignarréttinda þar, þ.e. öðrum en ríkinu, að lýsa réttindum sínum fyrir nefndinni áður en nefndin veitti fjármála- og efnahagsráðherra, f.h. ríkisins, frest til að lýsa kröfum ríkisins um þjóðlendur. Að loknum slíkum kröfulýsingarfresti og að framkomnum kröfum ríkisins yrði aftur skorað á þá sem kalla til eignarréttinda á svæðum sem kröfur ríkisins tækju til að lýsa kröfum fyrir nefndinni.

Þegar svæði 12 var tekið til meðferðar í apríl 2023 skoðaði nefndin vandlega hvort hagræði þætti af því að viðhafa þetta viðbótarþrep við hefðbundna málsmeðferð. Mat nefndarinnar var að viðbótarþrep væri hvorki til þess fallið að gera gagnaöflun markvissari né að fækka þeim sem þyrftu að gerast aðilar að málum fyrir óbyggðanefnd. Þvert á móti taldi nefndin að viðbótarþrep kynni að leiða til þess að málsmeðferð á svæðinu tefðist auk þess sem það væri líklegt til að reynast landeigendum meira íþyngjandi og kostnaðarsamara en hefðbundin málsmeðferð. Í bréfi óbyggðanefndar til fjármála- og efnahagsráðherra 19. apríl 2023, þar sem tilkynnt var að nefndin hefði ákveðið að taka svæði 12 til meðferðar, eru færð nánari rök fyrir ákvörðun óbyggðanefndar um tilhögun málsmeðferðarinnar. Bréfið má sjá hér.

Hefðbundin málsmeðferð, eins og ákveðið var að viðhafa á svæði 12 og hefur verið viðhöfð á fyrri svæðum, felur í sér að nefndin byrjar á að veita ríkinu frest til að lýsa kröfum um þjóðlendur. Lögmenn ríkisins afla ýmissa heimilda um eignarréttindi á svæðinu og á grundvelli þeirra lýsir fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkisins kröfum um þjóðlendur. Að framkomnum kröfum ríkisins skorar nefndin á þá sem telja til eignarréttinda á svæðum sem kröfur ríkisins taka til að lýsa kröfum fyrir nefndinni og jafnframt hefst þá kerfisbundin gagnaöflun á vegum nefndarinnar. Þar er málsmeðferðin stödd í dag og kröfulýsingarfrestur annarra en ríkisins er til 15. maí nk.

Ef fallist væri á beiðni fjármála- og efnahagsráðherra yrði núverandi málsmeðferð, sem hófst eins og áður segir 19. apríl 2023, hætt og hún byrjuð upp á nýtt með áðurnefndu viðbótarþrepi. Það fæli í sér að nefndin myndi byrja á því að kalla eftir því að allir sem teldu til eignarréttinda á svæði 12, þ.e. aðrir en ríkið, myndu lýsa réttindum sínum fyrir nefndinni, svo fengi fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkisins frest til að lýsa kröfum um þjóðlendur á ný og svo fengju aðrir aftur frest til að lýsa kröfum.

Nefndin tók beiðni fjármála- og efnahagsráðherra fyrir í vikunni og sendi í morgun meðfylgjandi svarbréf til ráðuneytisins þar sem ekki er fallist á beiðnina, með þeim rökum sem þar greinir. Í því sambandi var einkum horft til þess að slíkt væri að mati nefndarinnar ekki til þess fallið að einfalda málsmeðferðina gagnvart hugsanlegum rétthöfum á svæði 12, segir í svari  Sigmars Arons Ómarssonar, framkvæmdastjóra óbyggðanefndar.

Svar óbyggðanefndar til ráðuneytisins má sjá hér.

https://eyjar.net/vill-ad-obyggdanefnd-endurskodi-afstodu-sina/

Skoða blaðið á netinu
Forsida 12 Tbl 2024
12. tbl. 2024
Mest lesið
viðburðir
Fylgstu með

Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst