Áhugaverð listasýning verður haldin í Eldheimum dagana 20-24. september samhliða sjávaréttahátíðinni Matey. Þar munu 14 listamenn sýna verk sem vekja athygli á fjölþættum störfum, hlutverkum og verkefnum kvenna í sjávarsamfélögum.
Í fyrra þegar Matey sjávarréttahátiðin fór fram í fyrsta skipti var haldin sýning í Einarsstofu á verkum í eigu Vestmannaeyjabæjar sem sýndu konu í sjávarútvegi. Þá hins vegar kom í ljós að Vestmannaeyjabær ætti aðeins 3 verk sem sýna konur við störf í sjávarútvegi. Þó verk í eigu Vestmannaeyja séu fá er ekki þar sem sagt að slík verk séu ekki til á landinu. Í gegnum tíðina hafa konum líklega ekki verið gefin nægilegur gaumur þegar kemur að túlkun og framsetningu listamanna og störf karla vegið meira hjá listafólki. Það er þó staðreynd að það er meira í kringum fiskinn en að veiða hann. Það þarf að verka hann til þess að hægt sé að matreiða hann.
Í ár var því ákveðið að blása til sýningar á Matey sjávarréttahátíðinni þar sem félögum í Lista-og menningarfélaginu í Vestmannaeyjum yrði boðið að taka þátt í sýningu sem ber heitið “Konur í sjávarsamfélagi”. Sýningarstjóri er Gíslína Dögg Bjarkadóttir listakona í Vestmannaeyjum.
“Sýningunni í Eldheimum er ætlað að heiðra og vekja athygli á fjölþættum störfum, hlutverkum og verkefnum kvenna í sjávarsamfélögum. Konur í sjávarsamfélögum sáu og sjá auðvitað einnig um öll hin fjölmörgu „ósýnilegu“ störf í landi sem nauðsynleg eru svo samfélagið sem heild geti þrifist.”
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst