Eyjafréttir hafa undanfarið fjallað um áhrif nýrrar orkuverðskrár í Vestmannaeyjum, sem tók gildi um áramótin. Í kjölfarið hefur rafmagnsferjan Herjólfur hætt að hlaða í heimahöfn og atvinnurekendur lýst stöðunni sem „hreint út sagt hræðilegri“. Samhliða hefur bæjarstjóri Vestmannaeyja lýst áhyggjum af stöðunni í viðtali við Vísi/Bylgjuna.
Skjöl sem liggja til grundvallar lagningu nýrra raforkustrengja til Vestmannaeyja sýna hins vegar að gert var ráð fyrir auknum tekjum af raforkuflutningi sem einni af forsendum framkvæmdarinnar.
Sjá einnig: Grænar Eyjar, orkuöryggi og jarðgöng
Í skýrslu starfshóps um eflingu samfélagsins í Vestmannaeyjum frá september 2023, sem bæjarstjóri Vestmannaeyja átti sæti í, er fjallað ítarlega um forsendur lagningar nýrra raforkustrengja til Eyja.
Á blaðsíðu 11 í skýrslunni segir meðal annars orðrétt:
„Ítrekað skal að með þessum framkvæmdum er ekki verið að kalla eftir fjárframlögum frá hinu opinbera til að standa straum af lagningu strengja og orkuflutningi til Vestmannaeyja. Færsla notenda af skerðanlegum flutningi yfir á forgangs flutning skilar auknum tekjum og stendur vel undir lagningu nýrra strengja.“
Þar kemur þannig skýrt fram að aukinn kostnaður notenda vegna færslu yfir í forgangsflutning var hluti af þeirri mynd sem lögð var til grundvallar við undirbúning verkefnisins.
Í viljayfirlýsingu sem undirrituð var 20. febrúar 2024 af ríkinu, Landsneti, Vestmannaeyjabæ, HS Veitum og helstu orkukaupendum í Eyjum – þar á meðal Herjólfi – er megináherslan lögð á orkuskipti og aukið raforkuöryggi.
Þar segir meðal annars að markmiðið sé að:
„…treysta frekar raforkuflutning til Vestmannaeyja og nýta raforku í stað annarra óumhverfisvænna orkugjafa…“
Í 3. grein viljayfirlýsingarinnar lýsa undirritaðir hagaðilar yfir vilja sínum til að leita allra leiða til að kaupa raforku í stað annarra orkugjafa.
Í viljayfirlýsingunni er hins vegar ekki sérstaklega vikið að því hvaða áhrif breytingar á flutningsfyrirkomulagi og gjaldskrám kynnu að hafa á rekstrarkostnað notenda.
Þessu tengt: Tveir nýir rafstrengir til Eyja
Eins og staðan er í dag hefur Herjólfur hætt rafhleðslu í heimahöfn og siglir á olíu, á meðan atvinnurekendur lýsa því að orkukostnaður hafi aukist verulega. Á sama tíma liggur fyrir að í undirbúningsgögnum verkefnisins var gert ráð fyrir því að færsla notenda yfir í forgangsflutning myndi skila auknum tekjum sem stæðu undir fjárfestingunni.
Spurningin sem vaknar er því hvernig þessar forsendur samræmast þeirri stöðu sem nú er komin upp, þar sem orkuskipti virðast í sumum tilvikum leiða til aukinnar notkunar jarðefnaeldsneytis. Eyjafréttir hafa óskað eftir viðbrögðum bæjarstjóra Vestmannaeyja við þessum atriðum og munu birta þau þegar þau berast.
Þessu tengt: „Önnur gjaldskrá tekur við eftir lagningu strengjanna“
September 2023: Skýrsla starfshóps um eflingu samfélagsins í Vestmannaeyjum lögð fram. Þar segir að færsla notenda af skerðanlegum flutningi yfir í forgangsflutning muni skila auknum tekjum sem standi undir lagningu nýrra strengja.
20. febrúar 2024: Viljayfirlýsing undirrituð af ríki, Landsneti, Vestmannaeyjabæ, HS Veitum og helstu orkukaupendum í Eyjum, þar á meðal Herjólfi. Markmið: orkuskipti og aukið raforkuöryggi.
1. janúar 2026: Ný orkuverðskrá tekur gildi í Vestmannaeyjum.
2026: Herjólfur hættir rafhleðslu í heimahöfn og siglir á olíu.
Starfshópinn skipuðu: Árni Sigfússon, formaður, Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, Gísli Stefánsson, bæjarfulltrúi og Kjartan Ingvarsson, lögfræðingur í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, sem var starfsmaður hópsins.



















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst