Mikið hefur verið rætt og ritað það sem af er ári um þessar gengdarlausu hækkanir HS Veitna á eitt sveitarfélag umfram önnur. Eyjar.net spurði Ásmund Friðriksson, þingmann Suðurkjördæmis út í málið, en Ásmundur situr m.a. í atvinnuveganefnd þingsins.
„Skilaboðin á skjön við markmið í orkuskiptum ríkisstjórnarinnar“
Þeir tala um að ríkið stefni á hækkun niðurgreiðslu á næstunni. Er það rétt?
Já það er rétt. Ríkið hefur um árabil niðurgreitt húshitunarkostnað í Vestmannaeyjum og um áramótin hækkaði niðurgreiðslan vegna Vestmannaeyjum um tæp 27%, úr 158,74 í 201,06 kr./m³
Með þessari miklu hækkun á niðurgreiðslum vegna húshitunar í Vestmannaeyjum er verið að bregðast við mikilli hækkun orkuverðs í Vestmannaeyjum. Samkvæmt upplýsingum sem ég fékk frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu vegna þessara spurninga, kemur fram að niðurgreiðslur vegna Vestmannaeyja hafi hækkað mikið samhliða mikilli hækkun gjaldskrár HS Veitna fyrir Vestmannaeyjar. Sú hækkun niðurgreiðslna dugir til að halda orkuverði til hitunnar lögheimila í Vestmannaeyjum sambærilegu við verð hjá öðrum rafkyntum veitum.
Þrátt fyrir það er umtalsverða hækkun að ræða 1. janúar, þar sem verð í Vestmannaeyjum hefur í gegnum tíðina verið lægra en hjá öðrum kyntum veitum, auk þess sem aðrar kyntar veitur hækkuðu gjaldskrá sína í kringum áramótin, t.d. hækkaði gjaldskrá OV um 7,7%. Væntanlega er orðið tímabært að skoða enn og aftur stöðu rafkyntra veitna sérstaklega og hvernig styrkja megi stöðu þeirra. Hluti af vandanum er minna framboð af ódýrri skerðanlegri raforku og orkuskorti í landinu.
Með þessari hækkun niðurgreiðslna er orkuverð til hitunar lögheimila í Vestmannaeyjum áfram sambærilegt við verðið hjá öðrum rafkyntum veitum. Þetta er mikið réttlætismál fyrir Eyjamenn, en niðurgreiðslur verða næst endurskoðaðar í mars, þegar staðfestar niðurstöður vegna niðurgreiðslna ársins 2023 liggja fyrir.
„Mikill taprekstur hefur verið af starfseminni HS Veitna í Eyjum“
Í samskiptum mínum við ráðuneytið og HS Veitur kom líka fram að mikill taprekstur hefur verið af starfseminni HS Veitna í Eyjum undanfarin ár. Helstu skýringarnar á taprekstri eru stóraukinn fjármagnskostnaður vegna tilkomu varmadælustöðvarinnar og miklar hækkanir á raforkuverði og flutningi síðastliðin ár, sem og núna um áramótin. Þannig hækkaði gjaldskrá Landsnets vegna flutningskostnaðar um 7,5% þann 1. janúar 2024 og gjaldskrá Landsvirkjunar fyrir ótrygga orku um 7,66% og um 12,36% vegna forgangsorku á varmadælustöð. Þá er ætlunin að færa kyndistöð yfir á forgangsorku vegna fyrirsjáanlegra skerðinga hjá Landsvirkjun, en við það hækkar heildarraforkukaupakostnaður vegna hitaveituframleiðslu í Vestmannaeyjum.
Þá kemur til mikill kostnaður vegna olíunotkunar sem fallið hefur á hitaveituna þegar raforka hefur verið skert vegna vatnsskorts í lónum Landsvirkjunar. Þá hefur flutningsstrengur Landsnets til Eyja hefur bilað þráfaldlega og valdið miklum kostnaði og óþægindum fyrir atvinnulíf og heimili. Methalli var á rekstri HS Veitna í Vestmannaeyjum á síðasta ári og á bilun í sæstreng Landsnets (VM3) átti stærstan þátt í hallarekstrinum. Þess má geta að frá árinu 2014 hefur olíunotkun veitnanna í Eyjum numið 4.5 milljónum lítra til að mæta orkuskorti og bilunum á sæstrengnum. Sem er algjörlega óviðunandi og skilaboðin á skjön við markmið í orkuskiptum ríkisstjórnarinnar.
„Sameign þjóðarinnar“
Kallar þetta ekki á lagasetningu um stóru orkufyrirtækin, forgangsröðun og verðlagningu orkunnar og einnig á dreifingaraðila og smásala?
Með samþykkt raforkulaga 2003 féll niður skylda Landsvirkjunar að tryggja heimilum og minni fyrirtækjum raforku. Allt frá þeim tíma hefur því aldrei verið svarað hver og með hvaða hætti ber ábyrgð á raforkuöryggi heimila og minni fyrirtækja. Fyrir þinginu liggur frumvarp sem ætlað er að leysa þennan vanda til framtíðar, en það er ljóst að án aukinnar orkuöflunar verður orkuöryggi landsins aldrei tryggt með fullnægjandi hætti. Um málið hefur verið tekist á, í atvinnuveganefnd og er málið enn í meðförum nefndarinnar. Það er þó fullur skilningur á markmiðum frumvarpsins en það hefur ýmsar hliðar sem kostað hafa bæði mikla vinnu og fundarhöld. Ég geri ráð fyrir að málinu ljúki á næstu vikum.
Hver á orku landsins?
Orka landsins eins og aðrar auðlindir eru sameign þjóðarinnar. Nýtingarétturinn er í höndum fyrirtækja og einstaklinga og þar ættu sömu reglur að gilda um auðlindagjöld, sama hver auðlindin er. Landsvirkjun, HS Orka og Orkuveitan eru stærstu raforkuframleiðendur í vatnsorku og jarðhita. Þá eru sveitarfélög mörg hver með hitaveitur og smávirkjanir sem ryðja sér til rúms og það er mögnuð gerjun í orkukostum. Því hef ég kynnst sem formaður nefndar um orkukosti.
„Við í þinginu og eigendur veitunnar berum höfuð ábyrgð á því sinnuleysi sem nú blasir við“
Munt þú taka málið upp á þingi?
Orkumálin, framleiðsla og flutningur raforku eru eitt af mikilvægustu málum í þinginu og varla líður sá fundur í atvinnuveganefnd að orkumál eru ekki á dagskrá. Þar er þessa dagana mikill umkenningarleikur í gangi en mikilvægast af öllu er að við fylgjum þeim markmiðum að ná fram orkuskiptum í landinu og til þess þarf að framleiða meira af grænni endurnýjanlegri orku. Þá eru að koma fram nýir orkukostir og tækifæri framtíðarinnar eru svo mögnuð og þróunin svo hröð að varla er hægt að fylgja því öllu eftir. Þar gætu beðið tækifæri fyrir Eyjar og önnur samfélög á köldum svæðum sem þurfa svo sannarlega að sitja við sama borð og orkuríkari svæði.
Það er afar brýnt að ráðist verði í lagningu tveggja nýrra rafstrengja til að tryggja öruggan flutning raforku milli lands og Eyja. Öryggisleysi í raforku og vatnsmálum Vestmannaeyinga er í algjörum ólestri og stjórnvöld, við í þinginu og eigendur veitunnar berum höfuð ábyrgð á því sinnuleysi sem nú blasir við. Þar verður hver og einn að rísa undir sinni ábyrgð og ég mun styðja það, segir Ásmundur Friðriksson.
Eyjar.net hefur óskað eftir viðtali við stjórnarformann HS Veitna. Ekki hefur náðst í hann þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.
https://eyjar.net/haerra-verd-og-minni-hiti/
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst