Skipulagsmál hafa verið mikið í umræðunni undanfarnar vikur í Vestmannaeyjum. Á það einkum við um stækkun hafnarinnar og hvar hægt sé að koma við nýjum hafnarköntum.
Bæjaryfirvöld kynntu í byrjun árs tillögur að aðalskipulagsbreytingu fyrir Vestmannaeyjahöfn sem samþykkt var á fundi framkvæmda- og hafnarráðs í nóvember sl.
„Þörf fyrir stækkun á gámasvæði“
Fram kom í skipulagslýsingunni að til að tryggja nægt athafnarými og viðlegukanta við höfnina hafa bæjaryfirvöld áformað að stækka hafnarsvæðið og breyta aðalskipulagi á þeim svæðum þar sem ákjósanlegustu aðstæður eru taldar fyrir hafnarbakka, m.a. með tilliti til mögulegrar legu og athafna fyrir stærri flutningaskip. Í aðalskipulagi Vestmannaeyja 2015-2035 er nú þegar gert ráð fyrir stórskipakanti fyrir utan Eiðið sem og landfyllingu á því svæði. Er sú staðsetning enn talin fýsilegur kostur en kostnaðarsöm og umsvifamikil framkvæmd.
Þá segir í lýsingunni að með tilkomu landeldis í Viðlagafjöru verði til nýtt athafnasvæði hafntengdar starfsemi á austurhluta Heimaeyjar og því skapast forsendur fyrir að hafnarsvæði fyrir flutningaskip verði staðsett austar á eyjunni. Það er talinn fýsilegur kostur að stækka hafnarsvæðið við Skansfjöru til austurs út í Gjábakkafjöru og reisa svokallaðan Brimneskant. Mikil aukning hefur verið á gámaútflutningi á undanförnum árum og ljóst að þörf er fyrir stækkun á gámasvæði. Því eru áform um að byggja upp slíkt svæði við Brimneskantinn. Að auki er horft til stækkunar viðlegukants við Lönguna í átt að Hörgaeyrargarði auk styttingar Hörgaeyrargarðs.
„Hráar myndir“ ekki nóg
Í vikunni var svo tilkynnt um að hætt hafi verið við að fara í lengingu á Kleifabryggju m.ö.o. staurabryggju þvert fyrir Löngu.
Jafnframt voru birtar í fundargerð framkvæmda- og hafnarráðs til upplýsinga fyrir bæjarbúa hráar myndir (svo notað sé orðalag úr fundargerðinni) sem sýna hvernig bryggjukantar í Skansfjöru og Gjábakkafjöru gætu litið út. Myndirnar sýna annars vegar 100 metra kant við Skansfjöru skv. núverandi aðalskipulagi og svo 250 metra Brimneskant skv. breytingu á aðalskipulagi. Myndirnar sýna hvar skip gætu legið í innsiglingunni.
Á vef Skipulagsstofnunar – undir liðnum „Skipulag sveitarfélaga“ segir m.a.:
“Skipulag á að tryggja að land sé nýtt á hagkvæman hátt með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Byggingarleyfi og framkvæmdarleyfi sveitarstjórna þurfa að byggja á skipulagi og vera í samræmi við það.”
Í svona viðamiklu máli er æskilegt að bæjaryfirvöld vinni málið mun betur til upplýsinga fyrir bæjarbúa. Mikilvægt er að sýna á þrívíddarteikningum hvernig landið mun nokkurn veginn líta út á umræddu svæði. Ekki einungis setja inn viðlegukantinn eða „hráar myndir“. Þarna þarf að setja inn gatnagerð, athafnasvæði, gámastæður og fleira sem tilheyrir útskipunarhöfn. Svo bæjarbúar geti gert sér almennilega grein fyrir hvernig þetta kemur til með að líta út – verði þessi leið ofan á.
Að endingu er rétt að spyrja hvort ekki sé eðlilegt að annar möguleiki sem lengi hafi verið í umræðunni sé settur á dagskrá meðfram þessari hugmynd. Þ.e stórskipakantur norðan Eiðis. Væri ekki rétt að kostnaðarmeta báða þessa kosti. Hugsanlega mætti svo setja þá kosti í íbúakosningu að afloknu kostnaðarmati og mun betri kynningu.
Tryggvi Már Sæmundsson
Höfundur er ritstjóri Eyjar.net.
https://eyjar.net/haett-vid-hafnarkant-vid-longu/
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst