Óbyggðanefnd hafnaði á fimmtudag beiðni fjármála- og efnahagsráðherra um að nefndin endurskoðaði afstöðu sína og hefji að nýju málsmeðferð um eyjar og sker með þeim hætti sem ráðuneytið óskaði eftir áður.
Til að fá nánari upplýsingar um hvað þetta þýði leitaði Eyjar.net til Jóhanns Péturssonar hæstaréttarlögmanns sem þekkir vel til eignarréttar hér í Vestmannaeyjum. Hann var m.a. í forsvari fyrir jarða- og túnanefnd Vestmannaeyja á sínum tíma.
Aðspurður um hvernig staðan sé núna, segir hann að óbyggðanefnd hafi gefið Vestmannaeyjabæ og þá þeim öðrum sem telja sig eiga eignarrétt að Vestmannaeyjum, beinan eða óbeinan frest til 15. maí 2024 til að lýsa kröfu til nefndarinnar. Þessi dagsetning er ekki heilög og er hægt að fá frekari fresti ef þurfa þykir. Kröfulýsing Vestmannaeyjabæjar á þessu stigi er ekki flókin og þarf ekki að styðjast við mikinn fjölda heimilda.
Kerfisbundin söfnun heimilda
Er hægt að koma frekari kröfum að síðar?
Já, það er hægt og ekki óalgengt að slíkt gerist, t.d. að það bætist við málsaðilar þó svo að það eigi kannski ekki við í þessu tilviki en hugsanlega munu einhverjir til viðbótar lýsa yfir óbeinum eignarrétti í tiltekin landsvæði.
Það sem gerist næst eftir að kröfum hefur verið lýst, er að óbyggðanefnd í samvinnu við Þjóðskjalasafn stendur að kerfisbundinni söfnun heimilda. Vestmannaeyjabær getur auðvitað líka safnað heimildum. Þegar að þeirri söfnun lýkur, en hún tekur mánuði, þá er málsaðilum gefinn kostur á því að skila greinargerðum. Fyrst ríkið og svo t.d. Vestmannaeyjabær. Þá liggja fyrir heimildir og kröfur geta breyst, aukist eða dregist saman.
Ólíklegt að úrskurður óbyggðanefndar falli fyrr en á árinu 2025
Og kemur síðan úrskurður óbyggðanefndar?
Að lokum kemur úrskurður frá óbyggðanefnd en áður en það gerist þá gefst málsaðilum tækifæri t.d. til sátta og að breyta sínum kröfum t.d. gæti ríkið ákveðið á grundvelli fyrirliggjandi heimilda að draga úr sinni kröfugerð áður en og ef, til úrskurðar óbyggðanefndar kemur. Þetta gerist ekki á nokkrum mánuðum heldur líður talsverður tími og ólíklegt að úrskurður óbyggðanefndar falli fyrr en á árinu 2025.
Hvað gerist síðan eftir að úrskurður óbyggðanefndar liggur fyrir?
Þá er annaðhvort allir málsaðilar ánægðir og málið fer ekki lengra og úrskurður óbyggðanefndar verður endanlegur eða einhver málsaðila getur farið með málið fyrir dóm, héraðsdóm. Þá gefst m.a.s. aðilum færi á að breyta, auka eða minnka við kröfur sínar og málsástæður frá því sem var hjá óbyggðanefnd. Kannski fer bara hluti af úrskurði óbyggðanefndar fyrir dómstóla en annar hluti yrði endanlegur. Það er líka mögulegt.
Málið á byrjunarstigi
Hvenær lýkur þá þessu máli?
Því gæti lokið hjá óbyggðanefnd t.d. með sátt. Því gæti lokið með úrskurði óbyggðanefndar t.d. á árinu 2025 en ef málið fer í gegnum öll stig dómstóla þá lýkur því kannski 2027-2028, á að giska. Málið er núna á byrjunarstigi og rétt að árétta að við erum ekki að falla á neinum tímafresti, segir Jóhann Pétursson.
https://eyjar.net/krofunni-haldid-til-streitu/
https://eyjar.net/obyggdanefnd-fellst-ekki-a-beidni-radherra/
https://eyjar.net/krofugerdin-kom-a-ovart/
https://eyjar.net/nu-thurfum-vid-ad-gripa-til-varna/
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst