„Allt hefur verið til svo mikillar fyrirmyndar. Vel tekið á móti okkur og gestir okkar eru að kveðja Eyjarnar afskaplega glöð,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og gestgjafi á sumarfundi norrænu forsætisráðherranna sem fram fór í Vestmannaeyjum í dag. Sérstakur gestur fundarins var Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada.
Hópurinn komu í gær og snæddu þau á Slippnum þar sem Gísli Matthías og hans fólk bauð upp á mikla veislu. Á eftir var farið í bátsferð í Klettshelli þar sem Jóel Pálsson blés í saxófóninn af mikili list. Naut tónlistin sín vel enda hljómburður einstakur í hellinum.
Fundað var í Eldheimum en kl. 11.30 var stutt minningarathöfn á útsýnispallinum við Flakkarann. Þar minntust fulltrúar Vestmannaeyja, Íris bæjarstjóri og Páll forseti bæjarstjórnar og forsætisráðherrar Norðurlandanna með táknrænum hætti að í ár eru 50 ár liðin frá eldgosinu í Heimey og þess stuðnings sem Norðurlöndin veittu til uppbyggingarinnar í kjölfar gossins.
Að loknum fundarhöldum var blaðamannafundur í Eldheimum þar sem forsætisráðherrarnir stóðu fyrir svörum. Eðlilega snerust flestar spurningarnar um stöðuna í heimsmálum, í Úkraínu, og Rússlandi og inngöngu Svía í NATÓ.
Þema fundarins var viðnám samfélaga þegar hörmungar steðja að og sagði Katrín að reynsla Vestmannaeyinga í Heimaeyjargosinu 1973 væri svo sannarlega innlegg í þá umræðu. „Fólki finnst þessi saga mjög heillandi. Hér gýs og allir yfirgefa eyjuna en það er tekin ákvörðun um leið að halda áfram. Gefast ekki upp og það er sú ákvörðun sem er svo merkileg í sögunnar ljósi,“ sagði Katrín.
Að loknum blaðamannafundi héldu gestirnir héðan en í allt voru þeir hátt í 100, fylgdarlið, öryggisverðir og blaðamenn.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst