Samtök atvinnulífsins (SA) halda opinn vinnufund í Akogeshúsinu við Hilmisgötu kl. 10.00 í fyrramálið um lausnir til að losa íslenskt efnahagslíf út úr vítahring verðbólgu og vaxta. SA segja það algjört forgangsatriði fyrir bæði fyrirtæki og heimili og bjóða öllum sem eiga heimangengt að þiggja kaffi og hádegisverð og eiga gott samtal.
SA hóf í október hringferð sína um landið og eru Vestmannaeyjar næsti viðkomustaður. Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA, segir fundarefnið hafa valið sig sjálft enda sé þetta stærsta áskorunin fyrir íslenskt samfélag.
SA kynnti nýverið niðurstöður könnunar sem Gallup gerði meðal félaga í SA og innan síns viðhorfahóps um komandi kjarasamninga. 91% aðildarfyrirtækjanna og 72% í viðhorfshópnum sögðu mesta forgangsmálið að ná samningum sem stuðli að lækkun vaxta og verðbólgu.
„Á opnum fundum í hringferðinni ræðum við hvað aðilar vinnumarkaðarins, stjórnvöld, almenningur eða einstök fyrirtæki geta gert til að brjótast út úr þessum vítahring. Við finnum til mikillar ábyrgðar og áttum okkur á því hvaða áhrif aðilar vinnumarkaðarins geta haft,“ segir Sigríður Margrét.
Hún segir fyrstu fundina hafa gengið vonum framar og meðal annars hafi fulltrúar samtaka launafólks tekið virkan þátt. „Það er valdeflandi að eiga skoðanaskipti og heyra sjónarmið fólks og fyrirtækja hringinn í kringum landið í aðdraganda kjarasamninga.“
Sigríður Margrét segir háa vexti vera farna að bíta en mörg fyrirtæki sækja útlánavexti upp á 15%. „Arðsemi fyrirtækja var 20% lægri á fyrri helmingi þessa árs samanborið við sama tíma í fyrra. Háir vextir auka ekki bara kostnað heldur draga úr fjárfestingum til framtíðar.“
Önnur aðkallandi mál séu húsnæðismálin. „Á fundum okkar hefur fólk lagt þunga áherslu á aðgerðir í húsnæðismálum. Leysa þurfi undirliggjandi framboðsvanda sem skapi mikinn kostnað fyrir heimilin – beint og í formi verðbólgu.“
Skráning: https://www.sa.is/starfsemin/vidburdir/093011112112
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst