Landeyjahöfn er eitt umtalaðasta og umdeildasta samgöngumannvirki landsins. Tilkoma hafnarinnar hefur hins vegar stórbætt samgöngur til Vestmannaeyja eins og kom fram á morgunfundi Vegagerðarinnar snemma í vor þar sem verkefni hafnadeildar voru til umfjöllunar. Kjartan Elíasson, verkfræðingur á hafnadeild, flutti erindi um sögu Landeyjahafnar en hún er eina höfnin á Íslandi sem er í eigu Vegagerðarinnar. Farið er yfir sögu hafnarinnar á vef Vegagerðarinnar, en greinin birtist fyrst í Framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar.
Undirbúningur Landeyjahafnar hófst strax upp úr aldamótunum 2000. Niðurstöður dýptarmælinga við Landeyjasand árin 2002-2008 sýndu að aðeins einn staður á svæðinu kæmi til greina sem hafnarstæði. Algengasta ölduáttin við Landeyjahöfn er suðvestan og suðvestanöldur eru lægri á þessum stað þar sem Vestmannaeyjar veita skjól. Í sandfjörum myndast sandrif nokkuð frá ströndinni sem getur valdið vanda fyrir siglingar skipa. Það sama á við um Landeyjasand. Hins vegar myndast náttúrulegt hlið í sandrifinu fyrir framan Landeyjahöfn, auk þess sem dýpra er framan við höfnina en annarsstaðar á svæðinu, og þetta svæði yfirleitt kallað „hylurinn.“ Ástæður þess að höfninni var valinn þessi staður eru því; lægri alda, hlið í rifinu og dýpi fyrir framan höfnina og öll þessi atriði standast tímans tönn.
Höfnin var hönnuð á árunum 2005 til 2008. Siglingastofnun (nú hafnadeild Vegagerðarinnar) hannaði brimvarnargarða og bryggjukanta, Vegagerðin hannaði 12 km langan veg frá Hringvegi og að höfninni og eina brú á þeirri leið. DHI (Dansk Hydraulisk Institut) gerði öldufars- og sandburðarreikninga en DNV (Det Norske Veritas) gerði áhættugreiningu siglinga. Alþjóðlega ráðgjafafyrirtækið COWI lagði síðan heildarmat á verkefnið, hönnun þess og rannsóknir sem gerðar voru í ferlinu.
Bygging hafnarinnar hófst árið 2008 og stóð til 2010. Suðurverk sá um framkvæmdir sem snerust um byggingu tveggja 600 metra langra ytri brimvarnargarða, innri garða og 70 metra steyptrar staurabryggju ásamt ekjubrú. Einnig var lagður 12 km langur vegur og byggð ein brú yfir Ála. Notast var við námu á Seljalandsheiði, um 20 km frá framkvæmdasvæðinu. Að auki var farið í umtalsverða uppgræðslu lands til að hefta sandfok. Landgræðslan sá um uppgræðsluna en Suðurverk byggði rofvarnargarða. Þá voru byggðir leiðigarðar við Markarfljót til að verja veginn og forða því að ós Markarfljóts færðist of nálægt höfninni.
Höfnin var opnuð árið 2010. Aðeins tveimur mánuðum fyrr hófst eldgos í Eyjafjallajökli sem setti talsvert strik í reikninginn varðandi notkun hafnarinnar. Mikið gosefni skolaðist fram með Markarfljóti og safnaðist fyrir við höfnina. Þannig fór dýpið framan við höfnina úr um -11,0 m í um -8,0 m. Fara þurfti í miklar dýpkanir en verkið var seinlegt þar sem gosefnið var létt og erfitt að dæla því burt og þegar það settist á botninn innan hafnar þá pakkaðist efnið í hart lag sem seinlegt var að dæla.
Þetta var fordæmalaus staða og torvelt reyndist að spá fyrir um þróunina í notkun hafnarinnar enda höfðu frumrannsóknir verið gerðar út frá ákveðnu jafnvægi við ströndina sem þessi óvenjulegi viðburðar raskaði. Því var ekki hægt að treysta á að niðurstöður mælinga fyrstu árin eftir opnun hafnarinnar hefðu eitthvert forspárgildi, því ólíklegt var hvort þær endurspegluðu „venjulegt“ ástand við höfnina.
Við þetta bættust fleiri atriði sem gerðu siglingar til hafnarinnar strembnari. Í forathugunum hafði verið gert ráð fyrir að hægt yrði að sigla í höfnina í 3,5 m hárri öldu en síðar kom í ljós að siglingaþröskuldurinn var lægri, eða um 2,5 metrar. Þó gert hafi verið ráð fyrir sandburði inn í höfnina var talið að jafnvægisdýpi í hafnarmynni yrði um -5,0 m og dýpið yrði ekki minna en það. Hins vegar kom í ljós að jafnvægisdýpi í hafnarmynni var minna eða nær -3,0 m. Hreyfing innan hafnarinnar var mun meiri en talið var. Ferjan gat því hreyfst töluvert innan hafnarinnar og fyrir kom að skipið slitnaði frá bryggju og skemmdi mannvirki. Þá var ákveðið að hætta við byggingu nýrrar grunnristari ferju sem var í raun forsendan fyrir því að hægt væri að nýta höfnina best.
Siglingar í höfnina voru þar af leiðandi mun erfiðari en gert var ráð fyrir og því stóðust ekki spár um nýtingu hennar.
Fyrstu fimm árin sem höfnin var opin var unnið að því að dýpka yfir vetrarmánuðina en fljótlega var ljóst að ekki þýddi að reyna að halda höfninni opinni frá nóvember og fram í apríl vegna sandburðar og hreyfingar á gosefni. Dýpkunarskipin héldu ekki í við sandflutningana. Höfnin varð því hálfgerð sumarhöfn. Tekið var upp það fyrirkomulag að dýpka á vorin til að opna höfnina og svo aftur á haustin til að reyna að sigla fram í nóvember/desember.
Rannsóknir til að bæta höfnina héldu þó áfram. Innlendir og erlendir ráðgjafar unnu skýrslur um hugsanlegar úrbætur á höfninni. Skoðaðar voru mögulegar breytingar á höfninni til að bæta siglingaskilyrði eða minnka sandburð. Skoðaðar voru fleiri aðferðir til dýpkunar, til dæmis með föstum búnaði við hafnargarðinn, föstum botndælum, neðansjávarbeltavélum, eða plóg. En niðurstaðan var sú að ekki var talið líklegt að afköst slíkra aðferða væri betri en að nota dýpkunarskip.
Árið 2015 tók nýr dýpkunarverktaki við framkvæmdinni, Jan de Nul frá Belgíu. Dýpkunarskipið sem var notað var stærra en hið fyrra, betur búið og afköstin urðu meiri. Samt sem áður var ekki hægt að halda höfninni opinni yfir vetrartímann. Spilaði þar helst inn í að Herjólfur III risti of djúpt.
Árið 2016 var skrifað undir samning um smíði á Herjólfi IV. Samhliða því var sett upp vatnslíkan af höfninni til að skoða viðleguskilyrði innan hafnar.
Árið 2019 var ráðist í framkvæmdir við stækkun á innri höfn til að minnka hreyfingar innan hennar. Þá var byggð grjótfyllt stáltunna á innri garði til að bæta viðleguskilyrði til að auðvelda rafmagnstengingu nýs Herjólfs. Í útboðinu fólst einnig bygging á stáltunnum á ytri garða fyrir færanlegan botndælubúnað en hætt var við þann hluta framkvæmdarinnar. Bæði þótti þetta þrengja innsiglinguna um of auk þess sem búnaðurinn myndi afkasta of litlu.
Herjólfur IV hóf siglingar milli lands og Eyja í júní 2019. Ákveðið var að prófa aftur að dýpka á veturna sem reyndist vel og siglingar til hafnarinnar jukust verulega. Á árunum 2020 til 2022 var veður hagstætt og minna um sandflutning við höfnina sem auðveldaði verkið.
Nýi Herjólfur var sérstaklega hannaður til að sigla inn í Landeyjahöfn og gat þannig siglt inn í höfnina á mun minna dýpi en eldri ferjan, enda djúprista skipsins 1,5 m minni en á því gamla. Ef aldan er ekki há getur Herjólfur nú siglt í Landeyjahöfn á -3,0 m dýpi á flóði. Þessar breyttu forsendur opnuðu möguleikann á því að halda höfninni opinni allt árið.
Dýpkunarverktakar og viðhaldsdýpkun eftir árum
Almennt eru erfiðar aðstæður til dýpkunar í hafnarmynni Landeyjahafnar. Dýpkunarskipum má lýsa sem skipum með ryksugu sem sogar upp sand með röri sem liggur niður á botn. Ef aldan er of há getur rörið slegist í botninn og brotnað. Aðstæður þurfa því að vera góðar svo hægt sé að vinna við dýpkun. Til dæmis þarf kennialda helst að vera undir 1,5 metrum. Yfir hávetrartímann er það um 15 prósent af tímanum. Ef öldulengd er mikil lækkar það dýpkunarþröskuldinn enn meira eða niður í allt að 1,1 metra. Ekki er hægt að dýpka í hafnarmynni Landeyjahafnar ef vindhraði er meiri en 12 – 15 m/s. Þegar dýpi er lítið þarf að sæta færis og dýpka á flóði. Það eru því afar stuttir og fáir gluggar þar sem hægt er að vinna við dýpkun. Rauntíminn getur verið 5 – 10% af tímanum á veturna.
Í töflu X má sjá hvernig nýtingarhlutfall hafnarinnar breyttist þegar Herjólfur IV hóf siglingar. Á árunum 2011 til 2019 var siglt til Landeyjahafnar 1523 daga af 2965 eða í 51% daga. Ef teknir eru með þeir dagar þar sem siglt var hluta úr degi til Landeyjahafnar hækkar hlutfallið í um 57%.
Á árunum 2019 til 2023 sigldi Herjólfur IV 1185 daga til Landeyjahafnar af 1680 eða í 71% tilvika. Ef teknir eru með þeir dagar þar sem siglt var hluta úr degi til Landeyjahafnar hækkar hlutfallið í um 80%.
Þetta gjörbreytir aðstæðum enda lokast höfnin nú ekki mánuðum saman yfir veturinn, heldur koma alltaf dagar og vikur inn á milli þar sem hægt er að sigla þó dýpkunin gangi ekki sem skyldi.
Verið er að skoða nokkra möguleika til að bæta aðstæður við höfnina enn frekar og auka nýtingu hennar yfir vetrartímann. Árið 2020 var gerð óháð úttekt á Landeyjahöfn og í framhaldinu skýrsla um mannvirki til að bæta nýtingu hafnarinnar. Hafnadeild vinnur að tveimur rannsóknarverkefnum í tengslum við það:
Færsla á ós Markarfljóts: Hugmyndin að færslu óss Markarfljóts er ekki ný af nálinni en árin 2010 og 2011 var unnið að undirbúningi að slíkri framkvæmd. Hins vegar var fallið frá henni vegna umfangs verkefnisins og óvissu um árangur. Í dag er komin reynsla af mismunandi staðsetningu óssins. Á árunum 2020 til 2022 var Markarfljótið í um tveggja til tveggja og hálfs kílómetra fjarlægð frá höfninni en er í dag einungis í um eins kílómetra fjarlægð. Reynslan sýnir að sandburður um höfnina er minni eftir því sem ósinn er fjær.
Í skoðun er nú hvort hægt verði að færa ós Markarfljóts í tveggja til fjögurra km fjarlægð frá höfninni. Frekari rannsóknir eru framundan til að kanna fýsileika þessarar hugmyndar en framkvæmd er að sjálfsögðu háð samningum við landeigendur og umhverfismati.
Bygging garða á rifinu: Hugmynd um byggingu varnargarða á rifinu framan við höfnina var fyrst lögð fram af Vegagerðinni og DHI árið 2013. Þessi leið var skoðuð í skýrslu Vatnaskila og LVRS Consultancy árið 2023. Ljóst þykir að bygging garða á rifinu muni bæta siglingaskilyrði fyrir Herjólf svo hægt sé að sigla í hærri öldu, en áhrif á sandburð eru þó óljós enda rannsóknir á frumstigi. Mikilvægt er einnig að rannsaka hvor slík mannvirki yrðu stöðug á rifinu.
Að byggja höfn á útsettri sandströnd er ekki sjálfsagt mál. Af þeirri ástæðu hefur mest alla Íslandssöguna verið hafnleysi frá Höfn í Hornafirði allt vestur til Þorlákshafnar. Bygging Landeyjahafnar var því nokkuð afrek og hefur gjörbylt samgöngum við Vestmannaeyja. Vegagerðin vinnur áfram að því að auka nýtingarhlutfall hafnarinnar, segir í yfirferð Vegagerðarinnar.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst