Skipulag fyrir baðlón við Skansinn er nú til umfjöllunar hjá Vestmannaeyjabæ. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs í byrjun vikunnar var lagt fram að lokinni kynningu á vinnslustigi tillaga að breytingu á aðalskipulagi Vestmannaeyja 2015-2035 vegna þróunaráforma um baðlón og hótel á Skanshöfða ásamt nýju deiliskipulagi fyrir Skans og Skanshöfða. Auk þess er lögð fram umhverfisskýrsla vegna skipulags áformanna.
Umsagnir vegna aðalskipulagsbreytingar og/eða deiliskipulags og umhverfismatsskýrslu bárust frá umsagnaraðilum, frá einu fyrirtæki og frá einum íbúa. Íbúinn sem um ræðir er Þröstur B. Johnsen. Í bréfi hans er bærinn sakaður um bæði mismunun og svik. Bréf Þrastar má lesa í heild sinni hér að neðan.
„Umsögn við tillöguna vegna fyrirhugaðra framkvæmda og afhendingu lóðar fyrir hótel og baðlón við Skansinn. Ég óska eftir að landið (lóðin) undir hótelið og lónið verði auglýst fyrir hvern sem er að bjóða í og fara í framkvæmdir þarna og að þetta mál með lón þarna fari í íbúakosningu en áður hafði þetta svæði farið í íbúakosningu fyrir hótel og að þetta ferli allt verði gagnsætt. Einnig hvað á lóðin (landið) að kosta?
Hótel og baðlón
Það þarf örugglega að auglýsa landið sem á að fara undir þessa starfsemi en ekki bara afhenda einhverjum aðila. Það var allavega sagt hjá bænum eftir að þetta svæði fór í íbúakosningu um staðsetningu hótels á sínum tíma eftir að svikið var og farið frá framkvæmdaleyfi um byggingu hótels við Hástein og þegar ákveðið var að setja í óvænta íbúakosningu þrátt fyrir langt ferli og samþykkt leyfi, þar sem það féll á örfáum atkvæðum vegna staðsetningar, eftir að það svæði var ekki veitt þá óskuðum við eftir þessari staðsetningu þarna við Skansinn á milli Skansins og Flakkarans þeirri sem um ræðir hér, og var ákveðið að fara með þessa staðsetningu undir hótelið í íbúakosningu líka og í kosningu þeirri þá völdu Vestmannaeyingar staðsetninguna okkur til mikillar ánægju, og skipulagssviðið sagði okkur að næst væri að fara með málið í deiliskipulag, svo vorum við dregnir á asnaeyrunum mánuðum saman, svo eftir yfir 6 mánuði þá var sagt að það væri ekki hægt að afhenda okkur lóðina (landið) það væri ekki hægt að afhenda land án þess að auglýsa það til að geta jafnræðis, við báðum að það væri þá gert svo að við gætum komið verkefninu áfram.
Ekkert var gert og nokkrum mánuðum síðar var okkur sagt að þarna yrði ekkert leyfi veitt, þarna sveik bærinn okkur risastórt og í annað sinn gagnvart hótel byggingu, einnig sveik bærinn Vestmannaeyinga og plataði bæjarbúa með gervi íbúakosningu eins og áður til að eyðileggja fyrir athafnamönnum fyrir þóknanlega innan bæjarkerfisins og mismuna.
Og núna ætlar bærinn að leyfa aðila sem fer í copy paste af hótelverkefni okkar og þessari staðsetningu að fá þetta eins og ekkert sé nema sjálfsagt. Þetta er 100 % mismunun og svik. Þarna fer aðilinn sem á að færa lóðina meira að segja til sömu hönnuða og við vorum með, svo þið sjáið að Vestmannaeyingar voru sviknir og að það er ekki sama hver er þegar á að gera eitthvað í Eyjum.” segir í bréfi Þrastar Johnsen til Vestmannaeyjabæjar.
Fram kemur í afgreiðslu ráðsins í málinu að ráðið feli skipulagsfulltrúa umsjón með áframhaldandi vinnu við skipulagsáætlanir og að kynna niðurstöður kynningar á vinnslustigi fyrir þróunaraðilum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst