Lögreglan í Eyjum stofnaði nýverið Instagram-síðu sem kallast samfélagslöggur í Eyjum. Markmið síðunnar er að leyfa fólki að fylgjast með og fræða þau um fjölbreytta þætti lögreglustarfsins. Samfélagslögreglan hefur verið á ferðinni undanfarið, frætt börn og ungmenni meðal annars um umferðaröryggi, samfélagslega ábyrgð og fleira.
Nýjasta verkefni samfélagslögreglunnar snéri að því að ræða við krakka í grunnskólanum um samskipti á netinu, þar sem lögð var áhersla á ábyrgð í netnotkun, skaðsemi neteineltis og mikilvægi þess að sýna varfærni í því sem birt er á netinu. Krakkarnir fengu hagnýt ráð um hvernig eigi að bregðast við óviðeigandi hegðun og hvernig eigi að leita hjálpar ef þörf krefur.
Samfélagslögreglan heimsótti einnig á dögunum íþróttafélagið ÍBV þar sem rædd var svokölluð klefamenning við börn í 3.-6. bekk. Þar voru leikmenn minntir á mikilvægi góðra samskipta innan liðsins og þær reglur sem gilda í klefum. Sérstaklega var tekið fyrir bann við notkun snjallsíma í klefum, en það er liður í að tryggja að klefinn sé öruggur og jákvæður staður fyrir alla. Með þessu vilja þjálfarar og lögregla stuðla að sterkri liðsmenningu sem byggir á trausti, samkennd og jákvæðum samskiptum.
Þeir sem vilja fylgast með samfélagslöggunni í Eyjum geta fylgt þeim á instagram.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst