Nýjustu niðurstöður úr Þjóðarpúlsi Gallup, sem framkvæmdur var í desember 2025, sýna að Samfylkingin er áfram stærsti flokkurinn í Suðurkjördæmi, en Miðflokkurinn heldur sterkri stöðu þrátt fyrir lækkun frá síðustu mælingu.
Samkvæmt könnuninni mælist Samfylkingin með 26,9% fylgi í Suðurkjördæmi, en var með 25,5% í síðustu mælingu. Miðflokkurinn mælist nú með 24,3%, en hafði mælst með 30,8% í nóvember og tapar því nokkru fylgi milli mánaða. Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig og fer úr 20,9% í 22,1%, á meðan Framsóknarflokkurinn styrkist verulega og mælist nú með 11,3% fylgi, samanborið við 6,6% í síðustu könnun.
Flokkur fólksins hækkar lítillega og mælist með 6,2%, á meðan Viðreisn stendur nánast í stað og mælist með 5,3%. Sósíalistaflokkur Íslands mælist með 1,2%, Vinstri græn með 2,0%, Píratar með 0,3%, og aðrir flokkar með 0,4% fylgi í kjördæminu.
Yrðu þetta niðurstöður Alþingiskosninga myndi Samfylkingin fá þrjá kjördæmakjörna þingmenn í Suðurkjördæmi, líkt og Miðflokkurinn, sem einnig fengi þrjú þingsæti. Sjálfstæðisflokkurinn myndi fá tvo kjördæmakjörna þingmenn, á meðan Framsóknarflokkurinn fengi eitt þingsæti í kjördæminu.
Á landsvísu heldur Samfylkingin áfram forystu með 30,9% fylgi, samkvæmt nýjustu mælingu Gallup. Miðflokkurinn heldur áfram að sækja í sig veðrið og mælist nú með 21,7%, sem er hæsta fylgi sem flokkurinn hefur mælst með í Þjóðarpúlsi Gallup.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 16,9%, Viðreisn með 10,9%, Flokkur fólksins með 5,5%, Framsóknarflokkurinn með 5,2%, Vinstri græn með 3,6% og Píratar með 3,4%.
Stuðningur við ríkisstjórnina hefur dregist saman og er nú 55%, sem er rúmlega fjórum prósentustigum minna en í síðustu mælingu. Um 6% myndu skila auðu eða ekki kjósa, og rúmlega 13% taka ekki afstöðu eða vilja ekki gefa hana upp.

Um könnunina
Könnunin var framkvæmd dagana 1. til 28. desember 2025. Heildarúrtaksstærð var 9.091 manns og þátttökuhlutfall 43,4%. Vikmörk á fylgi flokka eru 0,4–1,6 prósentustig. Í Suðurkjördæmi byggja niðurstöðurnar á 476 svörum. Það er RÚV sem deilir niðurstöðunum með Eyjafréttum.



















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst