Alþingi samþykkti í gær fjárlög fyrir árið 2025. Heildarframlög til samgöngumála nema rúmum 62 milljörðum kr. og hækka um 9 milljarða kr. frá yfirstandandi ári, eða 17%. Unnið verður í ýmsum stórum verkefnum á árinu 2025, m.a. á Vestfjörðum, Reykjanesbraut og við Hornafjarðarfljót. Þá verða þrír milljarðar settir í að leggja tengivegi víða um land og að fækka einbreiðum brúm. Þetta kemur fram í tilkynningu frá innviðaráðuneytinu.
Framkvæmdum á vegum, flugvöllum, höfnum og sjóvörnum hefur nú verið forgangsraðað fyrir árið 2025 þar sem ný samgönguáætlun og tilheyrandi aðgerðaáætlun var ekki afgreidd á nýloknu þingi. Fjárlög marka þó á hverjum tíma ramma fyrir framkvæmdir og þjónustu í samgöngum og samgönguáætlun fyrir tímabilið 2020-2034 er áfram í fullu gildi.
Alls verður rúmum 27 milljörðum kr. ráðstafað til framkvæmda og viðhalds á vegakerfinu á árinu 2025. Meðal stærstu framkvæmda sem unnið verður að eru eftirtalin: Reykjanesbraut (Krýsuvíkurvegur-Hvassahraun), brú og vegtengingar við Hornafjarðarfljót, tvö verkefni á Vestfjarðavegi (Gufudalssveit og Dynjandisheiði) og Norðausturvegur (Brekknaheiði).
Áfram verður unnið að undirbúningi Sundabrautar. Þá er gert ráð fyrir framlögum vegna undirbúnings jarðgangna á fjórum stöðum (Fljótagöng, Hvalfjarðargöng, Ólafsfjörður/Dalvík og Súðavík/Ísafjörður).
Þar að auki hefjast framkvæmdir vegna Ölfusárbrúar á næsta ári (Hringvegur við Ölfusá) en gert er ráð fyrir því, eins og greint hefur verið frá, að veggjöld af umferð muni standa undir kostnaði við framkvæmdir og tefja því ekki framkvæmdir við aðra samgönguinnviði.
Tæpir 4,3 milljarðar kr. fara í framlög í fjölbreytt sameiginleg verkefni. Þar á meðal verða 2,5 ma. kr. settir í að leggja slitlag á tengivegi um land allt og 500 m.kr. í að fækka einbreiðum brúum, eða samtals 3 ma.kr. Stefnt að því að einbreiðum brúm fækki um fimm árið 2025, á Hringveginum og utan hans.
Til viðbótar við þetta er unnið að fjölbreyttum framkvæmdum á grunni samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Meðal þess sem unnið verður að á næsta ári er Fossvogsbrú, framkvæmdir við Arnarnesveg, nýir hjóla- og göngustígar ásamt ýmsum aðgerðum í umferðastýringu. Samtals nema framlög til þessara verkefna um 6,7 ma. kr.
Uppbygging varaflugvalla í Reykjavík, á Akureyri og Egilsstöðum heldur áfram með innheimtu varaflugvallargjalds. Samhliða verður unnið að uppbyggingu minni lendingarstaða svo þeir geti þjónað hlutverki sínu vegna sjúkra- og almannaflugs. Í fjárlögum verður um 4,7 ma.kr. varið til innanlandsflugvalla þ.a. um 1,4 ma.kr. til ráðstöfunar til framkvæmda á árinu 2025. Meðal þess sem er forgangsraðað á árinu 2025 er vegna fjarstýrðs flugturns annars vegar og viðhalds flugbrauta og hlaða hins vegar á Reykjavíkurflugvelli, flugstöðvar á Akureyri, og undirbúnings akbrautar og flughlaðs á Egilsstöðum. Þá er fé einnig veitt í viðhald af ýmsu tagi vegna flugvalla á eftirtöldum stöðum: Bíldudal, Ísafirði, Grímsey, Þórshöfn, Vopnafirði, Norðfirði, Hornafirði og Vestmannaeyjum.
Áætlunarflug milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja annars vegar og Húsavíkur hins vegar yfir vetrartímann verður áfram styrkt.
Áfram verður unnið að uppbyggingu hafnarmannvirkja víða um land.
Ráðuneytið hefur einnig forgangsraðað framkvæmdum á vegum hafnarbótasjóðs fyrir árið 2025. Alls verða framlög ríkisins vegna hafna og sjóvarna rúmur 1,6 ma.kr. árið 2025. Á eftirtöldum stöðum verður unnið við framkvæmdir við hafnir og sjóvarnir: Snæfellsbæ, Grundarfirði, Stykkishólmi, Reykhólahreppi, Bíldudal, Súðavík, Ísafirði, Bolungarvík, Skagaströnd, Sauðárkróki, Siglufirði, Dalvík, Húsavík, Vopnafirði, Borgarfirði eystri, Djúpavogi, Hornafirði, Vestmannaeyjum, Þorlákshöfn, Sandgerði og Njarðvík.



















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst
Hvað er sjóveiki?
Sjóveiki er misræmi milli skynfæra líkamans sem senda boð til heilans um hreyfingu – kyrrstöðu.
Þegar einstaklingur er úti á sjó þá nema skynjarar í vökvafylltum gangi í innra eyra hreyfingu og senda boð til heilans að einstaklingur sé á hreyfingu. Augun senda hins vegar boð til heilans um að viðkomandi sé kyrr. Heilinn á erfitt með að vinna úr þessum misvísandi og ósamræmdu upplýsingum og sendir skilaboð til magans um að tæma sig – þ.e. veldur uppköstum.
Einkenni sjóveiki eru þreyta, ógleði, svimi, svitakóf og uppköst.
Góð ráð til að hindra sjóveiki:
Lyf við sjóveiki þ.e. lyf sem slá á einkennin og fást án lyfseðils í apóteki.
Önnur ráð:
Hvar í skipinu er best að vera o.fl.
Þungun:
Þungaðar konur sem þjást af sjóveiki mega nota koffinátín í litlum skömmtum en best er að ráðfæra sig við lækni eða lyfjafræðing.
Þunguðum konum er ekki ráðlagt að nota engifer þar sem það er ekki staðfest hvort það geti haft skaðleg áhrif á fóstur.