Jólin eru á næsta leyti og flestir farnir að huga að undirbúningi hátíðanna. Að mörgu er að hyggja, svo sem gjöfum, mat, skreytingum og stemningu heimilisins. Við ræddum við Söru Sjöfn, eiganda gjafavöruverslunarinnar Póleyjar, um hvað hún telur skipta mestu í gjafavali og hvernig hún sjálf undirbýr jólin.
Hún deilir einnig hagnýtum ráðum fyrir þá sem vilja skapa fallegt jólaborð án þess að þurfa að kaupa allt nýtt. Að sögn Söru skiptir hugurinn mestu þegar velja á gjöf.
,,Hugurinn á bak við gjöfina gildir alltaf og það skiptir ekki endilega máli hvað hún kostar. Þegar ég græja gjafir handa mínu fólki finnst mér gaman að reyna finna eitthvað sem þeim langar í og passar fyrir þau. Ef fólk er í vafa með hvað það á að gefa sínum, þá mæli ég með að kíkja til okkar í Póley, við erum með eitthvað fyrir alla á öllu verðbili.”
Sara segir að kauphegðun fólks hafi breyst mikið á undanförnum árum. Fólk sé mun fyrr á ferðinni með jólagjafirnar og nýti sér afsláttardaga í auknum mæli. Hún rifjar upp að áður fyrr hafi svartur föstudagur verið eini afsláttardagurinn fyrir jólin, en nú séu þeir orðnir a.m.k. þrír og hjá sumum fyrirtækjum jafnvel heilar vikur. Þetta hafi augljóslega áhrif á hvernig fólk verslar. 
Aðspurð hverju hún mæli með í jólapakkann fyrir ömmur og afa sem eigi allt segir hún að fyrir ömmur sé naglalakk, handáburður, silkiklútur eða leðurhanskar alltaf klassískt og handa afa séu hlýir ullarsokkar, leðurhanskar eða snyrtitaska góð hugmynd. Handa þeim saman sé sniðugt að gefa eitthvað sem má borða, eins og til dæmis olíur, súkkulaði, marmelaði eða nammi.
Heima fyrir leggur Sara áherslu á að skapa þægilegt andrúmsloft, hún setur vanalega ljós í alla glugga og leyfir strákunum sínum að skreyta herbergin með gömlum jólastyttum sem hún og pabbi þeirra áttu þegar þau voru lítil. Í þetta safn bætist svo alltaf eitthvað nýtt við á hverju ári.
,,Jólatréð er samt að mínu mati fallegasta jólaskrautið og setjum við það upp um miðjan desember. En svo finnst mér þú komast langt með jólastemmingu í húsinu þegar það er kveikt á góðum jólailm, kerti víðsvegar um húsið og greni í vasa.”
Aðspurð hvaða ráð hún gefi til að ná fram fallegu jólaborði segir hún að fallegar servíettur, greni og kerti gera öll borð falleg svo sé alltaf hægt að nýta það sem til er fyrir í skreytingar.
,,Ég hef alltaf dúk á jólaborðinu og þá finnst mér ég strax komin með borðið á hærra plan. Ég blanda svo greni og kertum með matarstellinu og glösunum og er yfirleitt með tauservíettur sem ég bindi slaufu utan um og þá verður borðið afar hátíðlegt.”
Hvað myndiru segja að væri vinsælasta gjafavaran í ár að þínu mati? Það er erfitt að velja eitthvað eitt, en hleðslulampar eru að skora hátt fyrir dýrari gjafir, en það er líka mjög vinsælt að gefa fólki það sem það er að safna eins og glös og matarstell.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst