Sigurður VE er nú norð-austur af Langanesi með Heimaey VE í togi en Heimaey varð vélarvana við síldveiðar norður af landinu. „Já þetta er bara einhver bilun sem kemur betur í ljós þegar þeir koma í land”, sagði Eyþór Harðarson útgerðarstjóri hjá Ísfélaginu. Ekki stóð annað til en að draga skipið til Eyja og á Eyþór ekki von á öðru en að hægt verði að gera við þessa bilun í Eyjum. „Bæði skip eru með afla og líka mikilvægt að koma honum í vinnslu, sagði Eyþór en skipin eru samtals með tæp 1000 tonn og hafa þar með lokið veiðum á norsk-íslensku síldinni. Skipin eru nú á 9 sjómílna ferð og ættu að vera í Vestmannaeyjum aðra nótt en þokkalegasta veður er á svæðinu að sögn Óttars Steingrímssonar skipverja á Sigurði VE. „Það var stafalogn þegar við vorum að brasa í því að koma línu yfir. Spáir fínu restina þannig að þetta gengur vel, sagði Óttar en hann ásamt Eyþóri Þórðarsyni vélstjóra á Sigurði tóku myndirnar sem fylgja fréttinni.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst