Eyjafréttir ræddu við nokkrar sjómannskonur og er Kristín Hartmannsdóttir ein þeirra.
Atvinna? Er gæða- og verkefnastjóri hjá Laxey.
Fjölskylda? Guðni , Edda Björk og Hólmfríður Eldey .
Hversu lengi hefur þú verið sjómannsfrú? Guðni var á sjó á sumrin þegar hann var í Vélskólanum. Svo fór hann aðeins í kælibransann þegar við bjuggum í Reykjavík. Þegar við komum aftur til Eyja var hann á Herjólfi og þá eru menn heima á nóttunni. Það er eiginlega ekki fyrr en að hann fer að vinna fyrir Brim að mér finnst ég vera einhver sjómannsfrú.
Á hvaða skipi er maki þinn? Svanur RE.
Kynnist þið þegar maki er á sjó? Já það má segja það, hann var nemi og sjómaður á sumrin.
Hefur maki þinn alla ykkar tíð verið á sjó? Nei.
Hvernig hefur gengið að samræma sjómennsku og fjölskyldulíf? Yfirleitt mjög vel, getur verið mjög pirrandi þegar ég þarf að fara ein á viðburði tengda fjölskyldu og vinum. Ég er líka alveg hætt að kaupa miða á tónleika eða leikhús, því oftar en ekki þarf ég að breyta þeim eða fara ein. Þetta er samt ekki alslæmt því Guðni fær oft mjög góð frí inn á milli og þá reynum við að gera eitthvað saman. Þegar Guðni er heima þá fæ ég að vera pínu pannsla og hann sér um að sækja og skutla stelpunum og ganga frá í eldhúsinu.
Helstu kostir sjómennskunnar? Þegar Guðni er í landi og kemur heim þá er hann heima. Vinnan er ekkert að trufla og hann getur einbeitt sér að heimilinu 100%.
Helstu gallar sjómennskunnar? Fjarveran, augljóslega, hún getur verið erfið.
Eruð þið með hefð um sjómannahelgina? Nei eiginlega ekki, við höfum alltaf tekið þátt í bryggju fjörinu hjá sjómannadagsráði. Það er allt önnur umgjörð í kringum sjómannadaginn hjá Eyja útgerðunum heldur en t.d Brim. Við erum í ár að fara með áhöfninni á Svaninum til Dublin yfir sjómannadaginn en á síðasta ári komu þeir til Eyja og við fögnuðum helginni hér.
Eitthvað að lokum? Ég vil hrósa öllum sjómannsfrúm, þetta eru án efa kröftugustu konurnar. Til hamingju með daginn sjómenn og fjölskyldur.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst