Átta menn fórust – Mikil slysaár á sjó – Alls fórust 233 á þremur árum
Mánudaginn, 16. desember var þess minnst á Bryggjunni í Sagheimum að 100 ár voru frá hörmulegu sjóslysi norðan við Eiðið þennan dag árið 1924. Dagskráin var tvískipt og hófst á Bryggjunni sem var þéttsetin. Þar fór Helgi Bernódusson yfir sögu slyssins og þær heimildir sem hann notaði í mjög ítarlegri og góðri grein um slysið í jólablaði Fylkis. Gunnar Júlíusson lýsti leitinni að heppilegum steini sem minnisvarða á Eiðinu sem var afhjúpaður að lokinni athöfn í Safnahúsi. Arnar Sigurmundsson sagði frá tilurð minnisvarðans og séra Guðmundur Örn flutti hugvekju.
„Eitt af hræðilegustu sjóslysum í Vestmannaeyjum varð við norðanvert Eiðið 16. desember 1924, í svartasta skammdegi, fyrir réttum 100 árum. Þá fórust átta menn við landsteinana, fyrir augum þeirra sem voru í fjörunni og áhafna þriggja skipa sem lágu í vari úti fyrir og eins vélbáts frá Eyjum.
Fimm ekkjur og 19 börn föðurlaus
Í slysinu létust bæði ungir og efnilegir menn sem og fjölskyldufeður og forustumenn í bæjarfélaginu, harðduglegir sjómenn sem sumir hverjir voru alvanir að brjótast út í skip í öllum veðrum og á öllum árstímum. Fimm konur urðu ekkjur á þessum degi, heimili þeirra misstu fyrirvinnu og 19 börn urðu föðurlaus. Mikill harmur ríkti í mörgum húsum í Vestmannaeyjum eftir þennan atburð sem snart Eyjabúa dýpra en flest önnur áföll sem orðið höfðu á sjó,“ segir Helgi í upphafi greinar sinnar í Fylki.
Þeir sem fórust voru Halldór Gunnlaugsson héraðslæknir, Bjarni Bjarnason frá Hoffelli bátsformaður, bræðurnir Snorri í Steini og Guðmundur á Akri Þórðarsynir, Guðmundur Eyjólfsson, Ólafur Vilhjálmsson skipstjóri frá Múla og Kristján Valdason í Sandgerði, báðir ungir sjómenn og Guðmundur Guðjónsson frá Kirkjubæ. Níundi maðurinn var Ólafur Vilhjálmsson frá Múla sem einn komst af í slysinu. Hann var þá tæpra 24 ára, ungur formaður á bát í Eyjum.
Í fjöruborðinu
Ekki var báturinn stór, fjórróinn bátur, fjórir menn undir árum og einn við stýrið. „Lýsingum á slysinu ber saman um að rétt í því bili sem báturinn komst á flot, „í ýtingu“, og mennirnir tveir búnir að vega sig inn í hann reis há alda fyrir framan bátinn og lyfti honum svo að hann tók sjó að aftan en síðan reið ólagið yfir þannig að bátinn fyllti og honum hvolfdi; „bátinn fyllti um leið og þeir ýttu [út]“ … segir Finnur í Uppsölum, „alveg við lenginguna og þó hafði ekki verið neitt sérlega vont þar,“ segir í grein Helga en þetta gerist um 100 til 200 m frá landi.
„Báturinn maraði síðan í kafi á eftir. Mennirnir hafa annaðhvort kastast út eða stokkið fyrir borð til að forðast að sökkva með bátnum. Hafa þeir eflaust ætlað sér að synda eða svamla í land, svo skammt frá fjöruborði voru þeir, sennilega örfáa faðma. En þeir hafa sogast frá með sterku útfallinu. Þeim var óstætt í fjörunni því að þarna er mjög aðdjúpt eins og annars staðar utan við Eiðið og því brimasamara. Hvasst var og stóð ofan af Eiðinu, talsverð alda og straumur. Fjörugrjót gat líka verið hættulegt mönnum sem svömluðu í ókyrrum sjónum. Er skemmst frá að segja enginn komst í land.“
Var áhrifamikið að hlusta á Helga lýsa björgunaraðgerðum. Menn óðu út í brimgarðinn í bandi og reyndu með hökum að ná til mannanna sem flutu á sjónum. Enginn náðist.
Baksviðið
Tilgangurinn var að komast út í Gullfoss sem var að koma frá útlöndum. Beið hann ásamt tveimur skipum undir Eiðinu. Baksvið slyssins við Eiðið í desember 1924 eru þær sóttvarnaaðgerðir sem þá voru í gildi og hert var verulega á í kjölfar spænsku veikinnar 1918 sem kom hart niður í Vestmannaeyjum og lagði 27 Eyjamenn að velli, mest ungt fólk. „Mannskæðar pestir bárust frá útlöndum og því var vörnum gegn þeim nú beint að skipum sem komu að utan. Þeim var gert skylt að kalla til sóttvarnalækni þar sem þau komu að landi og áður en nokkur samskipti yrðu við land, farþegar færu frá borði eða vörum skipað upp,“ segir Helgi og það breytti engu þó aðstæður væru erfiðar eins og þennan dag í Vestmannaeyjum.
„Sóttvarnalæknirinn í Eyjum varð því að fara á bát út í skipin sem komu að utan. Honum var gert að athuga skipsskjöl, kanna heilsufar áhafnar og farþega og gæta að hvort hætta væri á að þeir bæru hingað til lands smitsjúkdóma eða pestir. Ef sigling hafði tekið 5 daga eða lengur og einskis orðið vart um borð, var minni hætta á ferðum en leysti þó lækninn ekki undan þeirri skyldu að fara út í skip,“ segir Helgi en var þetta nauðsynlegt?
Til hvers?
Svo var ekki að því er kemur fram í grein Sigurðar Sigurðssonar þá lyfsala í Eyjum, skáldið frá Arnarholti sem lét sig slysavarnir miklu skipta. Hann segir í aðsendri grein í Morgunblaðinu 3. janúar 1925 að mikil pressa hafi lengi hvílt á skipaafgreiðslunni í Eyjum og héraðslækni, sem annaðist sóttvarnir, að ljúka skyldustörfum sínum af á sem skemmstum tíma til að tefja ekki för skipanna til Reykjavíkur, og líkir pressunni við „farg“.
Hann bætir við: „…svo að smátt og smátt hefir það komist inn í meðvitund hlutaðeigenda, að út í alt yrði að fara, ef vel væri. Í þetta sinn [þ.e. 16. desember 1924] var síður en svo ófært, en fremur vont. En stundum hefir verið haldið á tæpasta vaðið, og ekki síst vegna hins ofanskráða [þ.e. pressunnar].“
Alveg ofaukið?
En jafnframt segir Sigurður: „Í öðru lagi er þessum læknisferðum í skipin alveg ofaukið, og meira en það.“ Þetta eru stór orð, en hann rökstyður mál sitt með þessum orðum: „Reglan er sú, að læknir leggur að skipshlið, kallar til skipstjóra og spyr um heilsufar. Allir frískir, og alt vel, er svo að segja sama svarið. Ferðin því óþörf,“ segir Sigurður og vísar líka til loftskeytatækja sem þá voru komin í skip.
Sigurður segir þarna hafi traustir menn verið á ferð og hvorki hafi báturinn verið ofhlaðinn ekki ekki gætt að stöðugleika. „Þeir kunnu til verka. Slysið var því atburður sem enginn gat séð fyrir. Veður var hvasst en hafði þó oft verið verra þegar skip voru afgreidd frá Eiðinu. Varla hafa þeir þó búist við farþegum úr Gullfossi til Eyja á leiðinni til baka.“
Alls fórust 233 sjómenn á þremur árum
Á þriðja áratug síðustu aldar urðu einhver mestu sjóslys hér við land sem heimildir eru um. Á árunum 1922, 1923 og 1924 fórust samtals 233 sjómenn við Íslandsstrendur. „Þann 16. desember 1924, sama dag og slysið varð við Eiðið, fórust tveir vélbátar með allri áhöfn, Leifur frá Hnífsdal og Njörður frá Ísafirði, alls 23 menn. Á þeim sólarhring einum fórst því 31 maður á sjó,“ segir Helgi í Fylki.
„Og ekki tók betra við árið 1925; dagana 7. til 8. febrúar, það ár fórust á einum sólarhring í Halaveðrinu mikla, 74 sjómenn, 68 á togurunum Leifi heppna og Fieldmarshall Robertson og 6 af vélbátnum Solveigu frá Ísafirði, auk fimm manna sem fórust í landi í veðurofsanum, urðu úti.
Þessar tölur minna í hlutföllum af íbúatölunni í landinu á mannfall stórþjóðanna í heimsstyrjöldum. Ekki er vafi á að hið mikla manntjón víða við landið á þessum árum og tíðu sjóslys hafa dregið athyglina frá einstaka atburðum eins og slysinu við Eiðið fyrir réttri öld.“
Minnumst þeirra sem fórust
„Það eru komin þrjú eða fjögur ár síðan ég ræddi við Helga Bernódusson um þörfina að minnast sérstaklega þessa atburðar þegar rétt 100 ár væru liðin frá slysinu,“ sagði Arnar Sigurmundsson. „Tíminn leið og fyrir rúmlega einu ári samþykkti Helgi að skrifa ítarlega grein um sjóslysið og var þá þegar farinn að afla heimilda. Á sama tíma var rætt við Kára Bjarnason um að minnast atburðarins með samkomu í Safnahúsinu. Hugmyndin um minnisvarðann hér á Eiðinu fæddist um sama leyti.
Blágrýtissteinninn sem myndar minnisvarðann var sóttur í Prestafjöru austast á nýja hrauninu í byrjun desember sl. Það tók kunnáttumenn nokkurn tíma að finna stein sem félli vel að verkefninu,“ sagði Arnar Sigurmundsson þegar minnisvarðinn á Eiðinu var afhjúpaður.
„Fyrst var leitað hér norðan á Eiðinu en síðar héldu þér félagar Marinó Sigursteinsson pípari og frumkvöðull og Gunnar Júlíusson grafískur hönnuður áfram leit þar til fannst heppilegur og myndarlegur steinn austur í Prestafjöru. Það þurfti stórvirkar vinnuvélar til að ná steininum en allt hafðist þetta.
Gunnar Júlíusson teiknaði magnaða mynd sem sýnir umhverfið hér norðan Eiðis þennan örlagaríka þriðjudag 16. desember 1924. Það var hlutverk okkar Helga Bernódussonar og Kára Bjarnasonar að fara vel yfir þennan knappa texta sem ritaður er á minningarplötuna sem er á íslensku og ensku,“ sagði Arnar.
„Hér stöndum við og minnumst þeirra sem fórust í sjóslysinu hér norðan við Eiðið fyrir réttum 100 árum. En hugurinn leitar víða og um leið minnumst við allra þeirra sem farist hafa í sjóslysum og tengjast Vestmannaeyjum með einum eða öðrum hætti.“
Þá var komið að Guðmundi Erni Jónssyni sóknarprest sem flutti minningar- og blessunarorð. Að lokum var að frumkvæði Marinós kveikt á kertum og þau látin loga við minnisvarðann og upp á steinveggnum þar fyrir framan.
Einstaklega áhrifarík dagskrá um mikinn harmleik og Helgi hefur unnið mikið og þarft verk með skráningu um það sem gerðist við Eiðið 16. desember 1924.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst