Bæjarstjórn Vestmannaeyja hefur staðfest breytingu á aðalskipulagi sem heimilar íbúðir á efri hæðum húsnæðis við Strandveg 89–97. Skipulagsstofnun benti þó á í kjölfarið að umsögn frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands hafi verið röng og barst nú ný umsögn þar sem varað er við neikvæðum áhrifum íbúðarbyggðar á svæðinu.
Heilbrigðiseftirlitið bendir á að föst búseta á svæðinu geti orðið íbúum skaðleg, meðal annars vegna hávaða, lyktar eða titrings frá atvinnustarfsemi í nágrenninu. Þar er vísað til reglugerðar um hávaða, þar sem leyfilegur hávaði á iðnaðar- og athafnasvæðum er 70 desíbel, en aðeins 35–50 desíbel á verslunar- og þjónustusvæðum.
Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja tók undir að ábendingin sé gagnleg en telur þó að í raun sé ekki ástæða til að hafa áhyggjur. Í skipulagsreglugerð sé gert ráð fyrir að starfsemi á svona athafnasvæðum valdi ekki meiri hávaða en almennt sé þekktur, t.d. á miðsvæðum. Málinu var vísað áfram til bæjarstjórnar til lokaafgreiðslu.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst