Bæjarráð Vestmannaeyja tók fyrir í vikunni erindi frá Haf Afli sem er nýstofnað orkufyrirtæki sem staðsett er í Vestmannaeyjum.
Fyrirtækið hyggst setja upp og reka nýja tækni ölduvirkjana við Íslandsstrendur og er áhugi fyrir því að taka fyrstu skrefin í Vestmannaeyjum með forrannsóknum sem lúta að því að kanna hvort og hvar hagkvæmar staðsetningar gætu verið í kringum Eyjar til að setja upp ölduvirkjanir.
Viljayfirlýsing um samstarf
Í erindinu til bæjarráðs óskar Haf Afl eftir því að Vestmannaeyjabær undirriti viljayfirlýsingu um jákvætt viðhorf og samstarf vegna verkefnisins.
Ráðið fól bæjarstjóra að ræða við forsvarsmenn Haf Afls og ganga frá viljayfirlýsingu um samstarf í samræmi við umræðu á fundinum.
Forsvarsmenn fyrirtækisins eru frá Eyjum. Það eru þau Eyvar Örn Geirsson, Dagný Hauksdóttir og Eyrún Stefánsdóttir.
Miðar að raforkusjálfbærni Vestmannaeyja árið 2030
Fram kemur í erindinu að fyrirtækið hafi þegar hafið undirbúningsferlið að sínu fyrsta verkefni sem miðar að raforkusjálfbærni Vestmannaeyja árið 2030, með uppsetningu 100MW virkjunarlausnar sem samræmist framtíðar spám um orkuþörf Vestmannaeyja sbr. skýrslu um eflingu samfélagsins í Vestmannaeyjum.
Fyrirtækið hefur þegar kannað helsta tækjabúnað sem er í boði til virkjunar á orku frá öldum hafsins og hefur undirritað samstarfssamning við norska tæknifyrirtækið Hafkraft.
Tæknin sker sig úr sem sjálfbær og endurnýtanlegur staðbundinn orkugjafi, sem einkennist af stuttum flutningsleiðum, miklum afköstum, langan líftíma, lágmarks umhverfisspori (sjónmengun, hljóðmengun, svæðis þörf, og engin óendurkræf náttúruspjöll), litlu viðhaldi, verndun dýralífs, lágu flækjustigi og sveigjanleika.
Havkraft ölduorkubreytirinn (H-WEC), sem er nýjung á sviði Oscillating Water Column (OWC) tækni, er spennandi tækifæri fyrir sjálfbærar raforkuframleiðslu við Ísland. Virkjanirnar er hannaðar með 50-100 ára líftíma í huga og setur það nýjan staðal fyrir framleiðslu raforku. Vottunar fyrirtækið DNV er langt komið með vottun tækninnar, og stórfyrirtæki á borð við Equinor hafa þegar hafið þróun tækninnar ásamt Havkraf AS til framleiðslu rafmagns við sína innviði í Norðursjónum.
Mikilvægt skref í átt að umhverfisvænni og aukinni orkunýtingu
Þá kemur fram í erindinu að tæknin sé raunhæfur og öflugur valkostur til að leysa af hólmi orkugjafa sem byggja á jarðeldsneyti og auka fjölbreytni og framboð orkuöflunar. Með þessu markar tæknin mikilvægt skref í átt að umhverfisvænni og aukinni orkunýtingu.
MS Havkraft er 250kW tilraunauppsetning tækninar staðsett fyrir utan Stadt í Noregi síðan 2014. Stadt er sá staður Noregs með verstu veðurskilyrði sem fyrirfinnast í Noregi. Og hefur MS Havkraft staðið af sér storma og fellibyli með sóma og án nokkura skemmda á búnaði eða umhverfi.
Samstarfssamningurinn við Havkraft lítur að forrannsóknum á uppsetningu tækninar í Vestmannaeyjum, ásamt því að veita Haf-Afl umboðsréttindi af allri tækni Havkraft á Íslandi.
Á næstu mánuðum hyggjast fulltrúa Haf-Afl vinna að nánari könnun á forsendum fyrir staðarvali og hagkvæmni uppsetningar ölduvirkjana við Vestmannaeyjar og í kjölfarið vinna nánari rannsóknir á staðaraðstæðum.
Markmiðið er að með rannsóknunum verði hægt að finna hagkvæmar staðsetningu/ar til að setja upp ölduvirkjanir við Vestmannaeyjar. Ef svo er verður leitast við að fjármagna uppsetningu fyrstu virkjunareininganna og gera raun tilraunir með framleiðslu raforku inn á net.
Beri tilraunirnar góðan árangur verður haldið áfram og byggð upp aukin orkuframleiðsla með uppsetningu virkjana garða í samráði við Vestmannaeyjabæ og aðra hagsmuna- og umsagnaraðila.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst