Þau eru æði misjöfn verkefnin sem þarf að fást við hjá rafvirkjum bæjarins. Eitt af þeim og klárlega með þeim óvenjulegri er að koma upp ljósum sem lýsir upp bergið í höfninni og innsiglingunni. Í fyrradag fóru þrír þeirra í verkefni í Vatnsrás, sem er vestan megin við Berggang í Heimakletti.
Það voru þeir Steingrímur Svavarsson, Bjarni Geir Pétursson og Bjarki Ingason frá Geisla sem unnu verkið. Að sögn Þórarins Sigurðssonar, eiganda Geisla gekk vinnan vel. „Rafmagnið fékkst úr streng sem liggur í Löngu,” segir hann og bætir við að þetta sé í senn aukið öryggi fyrir sjófarendur og einnig skrautlýsing. Frumkvæði að verkefninu kom frá Dóru Björk Gunnarsdóttur, hafnarstjóra, en til stendur að setja samkonar lýsingu á Ystaklett.
Ekki eru allir Eyjamenn með á hreinu hvar Vatnsrás er og er því til upplýsinga gaman að rýna í örnefnaskrá Gísla Lárussonar. Þar segir m.a. í kaflanum um Heimaklett. Austast í honum að sunnan, fyrir neðan brún er Þuríðarhellir (88), þar neðar og vestar Stórató (89). Þá Vatnsrás (90) við sjó niðri (rennur þar alltaf vatn úr berginu) en upp af Stórutó fyrir ofan brún Víti (91). Þar sunnar Steinketill (92) – hvammur hömrum luktur. Þá er Rauf (93), hryggur því nær ofan frá Háukollar (94) (sem er hæsti tindur Heimakletts) og niður á brún. Í berginu hér niður af er áframhaldandi hryggur í sjó niður, Berggangur (95).
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst