Spennandi tímar framundan hjá körlum í skúrum
14. apríl, 2024
DSC_6758
Farið yfir næstu skref. Eyjar.net/Óskar Pétur Friðriksson

Verkefnið “Karlar í skúrum” er enn á fullu hjá Lionsmönnum. Í síðustu viku gerðu þeir félagar ganginn tilbúinn fyrir málarann sem mun í framhaldinu sparsla og mála. Í kjölfarið voru næstu skref skipulögð, m.a. hvar hvert og eitt verkfæri yrði staðsett í skúrnum.

Karlar í skúrum er úrræði sem gefur karlmönnum tækifæri til þess að hittast og vinna að sameiginlegum og eða eigin verkefnum á sínum eigin hraða. Markmið verkefnisins er að skapa aðstæður þar sem heilsa og vellíðan karla er höfð í fyrirrúmi og þeir geti haldið sér við líkamlega, andlega og félagslega. Megináhersla er lögð á vinnu í tré og hvers konar annað handverk og er tilgangurinn að auka lífsgæði gegnum handverk, tómstundir og ekki síst samveru.

Verkefnið er fyrir karlmenn 18 ára og eldri og er hugmyndin að reyna að ná til karlmanna sem ekki geta stundað almenna vinnu, eru búnir að minnka við sig vinnu eða komnir á eftirlaun. Oftast eru menn búnir að minnka við sig húsnæði og hafa þá ekki aðstöðu fyrir föndur eða þessa háttar. Þá myndast oft tómarúm og margir eiga erfitt með að finna sér einhverja rútínu eða verkefni til að geta gengið að og fengið félagsskap. Síðastliðið haust var farið af stað með fjáröflun til að fjármagna verkefnið.

Það eru svo sannarlega spennandi tímar framundan hjá körlunum í skúrum. Fleiri myndir frá framkvæmdunum í liðinni viku má sjá hér að neðan.

Skoða blaðið á netinu
Forsida 12 Tbl 2024
12. tbl. 2024
Mest lesið
viðburðir
Fylgstu með

Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst