Innviðaráðherra skipaði í sl. haust starfshóp um könnun á fýsileika jarðganga á milli lands og Vestmannaeyja.
Starfshópurinn hefur það hlutverk að setja fram sviðsmyndir um mismunandi útfærslur og kosti og galla hverrar fyrir sig. Þá á starfshópurinn að leggja fram kostnaðarmetna áætlun um þær rannsóknir og greiningar sem framkvæma þarf, svo hægt verði að leggja endanlegt mat á fýsileika jarðganga til Vestmannaeyja.
Fundað fimm sinnum
Fulltrúi Vestmannaeyjabæjar í starfshópnum er Gylfi Sigfússon. Hann segir aðspurður um hvernig vinnu hópsins miði að það sé mjög jákvæður starfsandi í starfshópnum sem kom fyrst saman í byrjun október í fyrra og hefur fundað fimm sinnum.
„Á milli funda hafa meðlimir starfshópsins einnig verið að hittast og taka viðtöl við aðila sem tengjast málaflokknum. Safnað var saman upplýsingum og eldri skýrslum um Eyjagöng og rannsóknir á svæðinu og farið var ýtarlega yfir það sem til er og kannað var hversu langt þessar rannsóknir náðu á síðustu árum.“
Allt með það í huga að draga úr óvissu varðandi öryggi, kostnað og fýsileika Vestmannaeyjaganga
Að sögn Gylfa hefur starfshópurinn kallað til sérfræðinga sem fóru yfir áhrifaþætti á hverju sviði.
„Þeir sem komu til fundar við hópinn eru sérfræðingar á sviði arðsemismats, jarðfræði svæðisins, jarðgangagerðar og rannsókna á jarðlögum undir sjó.“
Inntur eftir svörum um hvað sé framundan í vinnu nefndarinnar segir hann að starfshópurinn muni klára samtöl við sérfræðinga og vinna að tillögum um næstu skref, m.a. hvað varðar nánari rannsóknir á jarðlögum á fyrirhugaðri gangaleið, allt með það í huga að draga úr óvissu varðandi öryggi, kostnað og fýsileika Vestmannaeyjaganga.
„Niðurstöður starfshópsins verða kynntar í maí á þessu ári ef að líkum lætur.“ segir Gylfi Sigfússon.
https://eyjar.net/kanna-fysileika-jardganga-til-eyja/
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst