Sumarið í Sagnheimum byrjaði í hádeginu á sunnudaginn með miklu hvelli. Fyrst með Sögu og súpu, sem er orðinn fastur liður í starfsemi Sagnheima. Á eftir var opnuð athyglisverð sýning í Einarsstofu á teikningum nemenda við Myndlistaskólann í Reykjavík af strokufólki og óskilammönnum á Íslandi frá 1570 fram til aldamótanna 1800. Athyglisverð sýning sem er vel þess virði að kíkja á og mannlýsingar sem fylgja hverri mynd eru í meira lagi kostulegar. Þar eiga Eyjamenn verðuga fulltrúa.
Daníel G. Daníelsson, sagnfræðinemi sem er upphafsmaður verkefnisins byrjaði með athyglisverðum fyrirlestri þar sem hann sagði frá tilurð þessa áhugaverða samstarfsverkefnis hans og Myndlistarskólans. Dró hann m.a. fram í dagsljósið nokkra eftirlýsta Eyjamenn og –konur. Sýningin í Einarsstofu samanstendur af 30 teikningum nemenda við Myndlistaskólann. Myndirnar eru unnar upp úr mannlýsingum í Alþingisbókum Íslands frá 1570 til 1800 sem þjónuðu þeim tilgangi að hægt yrði að bera kennsl á strokufólk og óskilamenn á Íslandi.
Samstarf Myndlistaskólans og Daníels spratt upp úr rannsóknum fyrir verkefnið, Fötlun fyrir tíma fötlunar sumarið 2018 og afraksturinn er nú til sýnis í Einarsstofu. Sýningin byrjaði í Háskóla Íslands í lok janúar, var á Minjasafninu á Akureyri í mars og nú í Eyjum og verður opin í Einarsstofu til 6. maí. Héðan fer hún aftur til Reykjavíkur þar sem hún verður hluti af útskriftarsýningu myndlistarnema. Eftir það fer hún í Egilsstaði.
Eyvindur flottur en Halla ógeðsleg
Á heimasíðu Sögufélagsins segir: „Hugmyndin að samstarfinu við Myndlistaskólann kviknaði hjá Daníel þegar hann fékk það verkefni að finna mannlýsingar í Alþingisbókunum. Mannlýsingarnar voru eins og ljósmyndir þess tíma, oft allítarlegar og til þess hugsaðar að hægt væri að bera kennsl á burtstrokið fólk og veita því ærlega ráðningu fyrir uppátækið.“
Eyvindi og Höllu, því þjóðþekkta útilegufólki voru gerð rækileg skil. Hann var sagður mikill tóbaksreykingamaður, væri með stærri mönnum, bólugrafinn, toginleitur, hirtinn og hreinlátur, mjúkmáll og þýður í geði. Hún hinsvegar fékk þá lýsingu að vera svipill og ógeðsleg, dökk á brún og brá, lág- og fattvaxin.
Annar þekktur Íslendingur, Jón Hreggviðsson var sagður móeygður, gráfölur í andliti, snarlegur og harðlegur í fasi.. Ekki er komin teikning af honum en það gæti orðið seinna því nemendur drógu 30 lýsingar úr bunka sem taldi í allt um 200 lýsingar á fólki af öllum stigum sem lent hafði upp á kant við stjórnvöld.
Varpar ljósi á samfélagið
„Það er því engin lognmolla í lýsingum og orðfæri í Alþingisbókum Íslands – hafi einhver haldið að réttarskjöl væru þurr og þreytandi texti. Í bókunum, sem eru fáanlegar hjá Sögufélagi, má finna margt forvitnilegt sem varpar skýru ljósi á ólíklegustu kima samfélags aldanna 16.-18.
Þegar sakamenn voru eftirlýstir buðu innviðir og boðleiðir ekki upp á annað en nákvæmar kjarngóðar lýsingar í orðum á útliti sem svo þurftu að berast manna á milli. Í raun holdi klæddir samfélagsmiðlar.
Teikningum myndlistarnemanna er ætlað að vekja þessa Íslendinga af jaðri samfélagsins til lífsins. Með nákvæmum lýsingum Alþingisbókanna á andlitsdráttum, líkamsbyggingu og klæðaburði ásamt hæfileikum listamannanna, tekst það mætavel.“
Ljósmyndir þess tíma
Á öðrum stað segir: „Eftirlýstir Íslendingar á 17. og 18. öld Í Alþingisbókum Íslands (Acta comitiorum generalium Islandiæ) er að finna um tvöhundruð mannlýsingar af burtstroknum Íslendingum og öðru óskilafólki frá 17. og 18. öld. Mannlýsingar voru ljósmyndir þess tíma og voru allar lesnar upp á Alþingi við Öxará fyrir framan embættismenn Danakonungs og annað áhrifafólk á Íslandi. Tilgangurinn? Að bera kennsl á burtstrokið fólk í von um að handsama það og veita því makleg málagjöld. Eins og sést eru mannlýsingarnar misítarlegar en jafnan er aldur tilgreindur, líkams- og hárvöxtur og litaraft húðar og hárs og áferð þess. Andlitsdrættir eru dregnir fram og lagt huglægt mat á ásýnd fólks og fas þess.
Margt tínt til
Gerð er grein fyrir viðmóti, hegðun og málrómi í samskiptum, ásamt kækjum og sérstökum talanda. Klæðnaði og öðrum aðbúnaði er gjarnan lýst sem og meðferð fjármuna. Tóbaks- og áfengisneysla er sérstaklega tilgreind ásamt sérhæfni og getu til hvers kyns vinnu. Að lokum er greint frá menntun, þá hvort viðkomandi sé skrifandi eða læs.“
Eyjakonan Steinunn
Á myndunum eru Eyvindur og Halla og á einni Steinunn Steinmóðsdóttir, Eyjakona sem 1695 var eftirlýst fyrir morð. Henni var lýst þannig: Flestum sýndist sem kreppt og karaómagi og svo í yfirlit sem afkræmisleg og sóttlera. Nokkuð toginleit og gráföl, nokkuð rauðbirkin, með litla hönd og hnífskuðrð þvert um innan til á hægri handlegg. Hver nú héðan leynilega burt strauk á næstliðnum laugardagsmorgni úr tjaldi lögsagnarans í Rangárþingi, Magnúsar Kortssonar.
Saga hennar er merkileg og efni í heila sögu fyrir áhugasama. Sýning er opin til sjötta maí nk. Myndirnar varpa sýn á það hvernig Íslendingar litu út á þessum hörmungartímum og ekki er lýsingarnar, sem eru með hverri mynd síðri.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst