Vestmannaeyjabær og Stóra sviðið hafa gert með sér samstarfssamning vegna Eyjatónleika sem hafa það m.a. að markmiði að halda utan um þau miklu menningarverðmæti sem Eyjalögin eru.
Samningurinn var undirritaður 4. október sl. af Guðrúnu Mary Ólafsdóttur og Bjarna Ólafi Guðmundssyni fyrir hönd Stóra sviðsins, Írisi Róbertsdóttur, bæjarstjóra og Kára Bjarnasyni, safnstjóra Safnahúss. Þetta kemur fram í tilkynningu á vefsíðu Vestmannaeyjabæjar.
Tónleikarnir voru fyrst haldnir árið 2011 og eru haldnir í janúar ár hvert í tengslum við eldgosið á Heimaey. Þeir eru teknir upp, ávallt hljóð og stundum mynd og þá hafa verið framleidd póstkort og myndefni um einstaklinga og viðburði tengdum Eyjum, en þar er eldgosið á Heimaey fyrirferðamikið.
Vestmannaeyjabær styrkir hliðarverkefni Eyjatónleikanna til að styðja við varðveislu þeirra menningarverðmæta sem skapast hafa í tengslum við tónleikana og gera þau aðgengileg fyrir Eyjamenn og gesti þeirra. Stóra sviðið mun afhenda Vestmannaeyjabæ allt efni sem framleitt hefur verið í tengslum við tónleikana frá upphafi til dagsins í dag og það efni sem verður framleitt á samningstíma.
Safnahús mun halda utan um efnið og gera það aðgengilegt fyrir gesti safnsins. Eldra efni verður veitt formleg viðtaka við afhöfn í Safnahúsi á Safnahelgi í byrjun nóvember.
Vestmannaeyjabær lýsir yfir mikilli ánægju með samninginn. Eyjalögin eru órjúfanlegur hluti af menningu Vestmannaeyja og mikilvægt að halda þeim á lofti eins og gert hefur verið með Eyjatónleikunum. Efnið sem búið hefur verið til í tengslum við tónleikana eru verðmæti sem Safnahús mun varðveita áamt því að gera gestum safnsins kleift að hlusta og horfa á upptökur frá tónleikunum.
Við undirritunina þökkuðu Guðrún Mary og Bjarni Ólafur fyrir þennan myndarlega stuðning bæjarins og þá viðurkenningu sem í honum felst á verkefni sem að þeirra mati er afar mikilvægt Eyjamönnum nær og fjær. “Sérstaklega finnum við fyrir hvað þetta skiptir brottflutt Eyjafólk miklu máli, að geta komið saman í kringum þessi tímamót” sögðu hjónin að lokum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst