Svar umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins við beiðni Eyjar.net um að ráðuneytið geri opinber þau gögn, þ.m.t. rekstrar- og efnahagsreikninga, sem HS Veitur notar til að ákvarða gjaldskrá sína, hefur nú borist, þó að enn vanti rökstuðninginn sem beðið var um.
Með svari ráðuneytisins eru bréf HS Veitna til ráðuneytisins, dags. 9. júní 2023 og 22. nóvember 2023. Í svari ráðuneytisins segir að í þeim bréfum sé að finna rökstuðning HS Veitna fyrir gjaldskrárhækkunum á síðasta ári og 1. janúar 2024.
Helstu skýringarnar á taprekstri samkvæmt HS Veitum
„Helstu skýringarnar HS Veitna á þessum hækkunum eru annars vegar verulegur taprekstur síðastliðin ár og hins vegar hækkanir hjá Landsneti og Landsvirkjun.
Varðandi taprekstur síðastliðin ár þá er ljóst samkvæmt framlögðum gögnum frá HS Veitum að mikill taprekstur hefur verið af starfseminni í Vestmannaeyjum sl. ár og frá árinu 2018 nemur uppsafnað tap rúmum 637 m.kr. á verðlagi dagsins í dag. Helstu skýringarnar á þeim taprekstri skv. HS Veitum eru miklar verðhækkanir á raforkuverði og flutningi, stóraukinn fjármagnskostnaður vegna tilkomu varmadælustöðvarinnar og mikill kostnaðar vegna olíunotkunar sem fallið hefur á hitaveituna þegar afhending á raforku hefur verið skert vegna vatnsskorts í lónum Landsvirkjunar og þegar flutningsstrengur Landsnets til Eyja hefur bilað. Methalli var á rekstrinum á síðasta ári og á bilun í sæstreng Landsnets (VM3) stærstan þátt í því, en á fyrri hluta ársins (janúar-júní) var hallinn 275 m.kr. samkvæmt upplýsingum HS Veitna.
Þá hafa hækkanir hjá Landsneti og Landsvirkjun einnig áhrif á reksturinn: Gjaldskrá Landsnets vegna flutningskostnaðar hækkaði um 7,5% þann 1. janúar 2024, gjaldskrá Landsvirkjunar fyrir ótrygga orku hækkaði um 7,66% og vegna forgangsorku á varmadælustöð um 12,36%. Þá er ætlunin að færa kyndistöð yfir á forgangsorku vegna fyrirsjáanlegra skerðinga hjá Landsvirkjun, en við það hækkar heildarraforkukaupakostnaður vegna hitaveituframleiðslu í Vestmannaeyjum skv. upplýsingum HS Veitna.”
Uppgjör veitustarfseminnar séu vinnugögn
Þá segir í svari ráðuneytisins:
„Sundurliðaðar fjárhagsupplýsingar um áætlaða afkomu hitaveitustarfseminnar í Vestmannaeyjum árið 2024 með og án hækkunar á gjaldskrá, sem eru í viðauka við bréfið 22. nóvember, eru þó ekki afhentar að svo stöddu, en ráðuneytið skoðar hvort fallast eigi á rök HS Veitna um að það séu vinnugögn og viðkvæmar fjárhagsupplýsingar, sem undanþegnar séu upplýsingarétti. Þó má benda á að í bréfinu 22. nóvember kemur fram að án hækkunar yrði að óbreyttu 75 m.kr. tap af rekstrinum 2024, en með hækkun verður 62 m.kr. hagnaður árið 2024 skv. upplýsingum í viðaukanum.
Á grundvelli þessara skýringa og sérstaklega með hliðsjón af upplýsingum um mikinn taprekstur síðastliðin ár, samþykkti ráðuneytið umræddar gjaldskrárhækkanirnar.
Samhliða hækkunum HS Veitna á gjaldskrám hefur ráðuneytið hækkað niðurgreiðslur húshitunar í Vestmannaeyjum og er orkuverð til hitunar lögheimila í Vestmannaeyjum með þeim niðurgreiðslum sambærilegt við verðið hjá öðrum fjarvarmaveitum/rafkyntum veitum hérlendis.”
segir að endingu í svari umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins.
Eyjar.net mun halda áfram að óska eftir gögnunum sem ráðuneytið vísar til um hvort fallast eigi á rök HS Veitna um að það séu vinnugögn og viðkvæmar fjárhagsupplýsingar, sem séu undanþegnar upplýsingarétti. Það verður að teljast hæpið þegar að um er að ræða fyrirtæki sem hefur einokun á þessum markaði.
https://eyjar.net/funda-loks-med-eyjamonnum/
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst