Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja tók á ný fyrir fyrirspurn um byggingu íbúðarhúsnæðis á Alþýðuhúsareitnum svokallaða við Skólaveg 21b.
Sjá einnig: Fjölbýlishús í stað Alþýðuhúss? – Eyjafréttir
Ráðið fól skipulagsfulltrúa að afla umsagnar Minjastofnunar Íslands vegna erindisins og liggur umsögn Minjastofnunar nú fyrir. Fram kemur í bréfi Minjastofnunar að stofnunin mæli með því að húsinu verði fundið nýtt hlutverk sem ekki krefst stórvægilegra breytinga sem draga myndu úr varðveislugildi þess.
„Byggingin á sér merka sögu og hefur gildi fyrir samfélagið í Eyjum og stendur auk þess á áberandi stað í bænum, í næsta nágrenni við Stakkagerðistún, Safnahúsið og Ráðhús Vestmannaeyja. Auk samfélagslegs gildis, hefur Alþýðuhúsið byggingarlistarlegt, menningarsögulegt og umhverfislegt gildi fyrir Vestmannaeyjabæ. Minjastofnun mælir með því að tillögunni verði hafnað.”
Í afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs segir að ráðið geti ekki orðið við erindi sbr. umsögn Minjastofnunar Íslands. Ráðið hefur vilja til að leita leiða til að finna nýtingu fyrir húsið í samstarfi við eiganda og lóðarhafa. Ráðið fól starfsfólki sviðsins að ræða við lóðarhafa.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst