Rannsóknarnefnd samgönguslysa (RNSA) opinberaði í dag skýrslu vegna óhapps sem varð í innsiglingunni í Eyjum þegar akkeri Hugins VE festist í neysluvatnslögn sem liggur á hafsbotni þvert yfir innsiglinguna. Atvikið átti sér stað í nóvember 2023 og urðu skemmdir á vatnslögninni.
Í niðurstöðum nefndarinnar segir að ástæða þess að akkeri skipsins hafi fest í innsiglingunni telur nefndin vera að ekki hafi verið gengið rétt né nægjanlega vel frá akkerisbúnaði skipsins. Þá segir að skipstjóri Hugins hafi ekki haft réttar forsendur til að meta staðsetningu akkerisins þar sem hann vissi ekki að akkeriskeðjan var ekki í réttri lengd. Í þriðja lagi var samskiptum skipstjórnarmanna og útgerðar ábótavant. Þá telur nefndin að staðsetning svo mikilvægra innviða eins og vatnslagna, rafstrengja og ljósleiðarar sé afar óheppileg í innsiglingu til hafnar enda er akkerisbúnaður skipa öryggistæki sem gripið er til við óvæntar aðstæður.
Þá beinir nefndin því til útgerðaraðila Hugins að leitast verði við því að bæta samskipti innan áhafnar og milli stjórnenda útgerðarinnar og áhafnar með það að markmiði að koma á góðum vinnubrag. RNSA beinir því til Innviðaráðuneytisinns að gerð sé úttekt á því hvort lögnum og öðrum mannvirkjum sé komið fyrir í eða nálægt innsiglingum hafna er geti stofnað öryggi skipa í hættu verði vélarbilun eða aðrar ófyrirséðar aðstæður.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst