Þarf Vestmannaeyjabær ekki aðeins að endurskoða áherslur sínar?
Ágúst Erling Kristjánsson skrifar
Hjolast Skjaskot
Þarf Vestmannaeyjabær ekki aðeins að endurskoða áherslur sínar? Vera minna upptekin af því að vera „sexý“ og taka frekar á praktískum málum? Þá þyrftum við ekki lengur að geyma hjólastólinn í kjallaranum, segir greinarhöfundur m.a. Mynd/úr safni.

Í íslensku samfélagi dagsins í dag virðist allt þurfa að vera sexý og flott. Við sjáum myndir af glæsilegu fólki á skemmtilegum stöðum á Instagram. Við deilum spennandi og áhugaverðum upplifunum á Facebook og dönsum eggjandi á TikTok.

Á laugardaginn sem leið var tekin skóflustunga að nýjum búningsklefum við íþróttahúsið. Þetta verður glæsileg bygging sem mun nýtast ágætlega. Einnig er hafin vinna við að skera torf af Hásteinsvelli, og þar er stefnan sett á að leggja óupphitað gervigras, sem mun líklega ekki breyta miklu fyrir fótboltaiðkun hér á staðnum. Þá var einnig sýnd tillaga að minnismerki um eldgosið sem verður staðsett í stærsta minnismerkinu um eldgosið. Allt þetta mun sennilega kosta nokkur hundruð milljónir. Það er vel og gott – og eflaust eru þessi verkefni bæði dásamleg og nauðsynleg fyrir samfélagið.

Á sama tíma og þetta er allt í gangi er ekki hægt að bjóða einstakling í hjólastól upp á tónlistarnám í byggingu tónlistarskólans – einfaldlega vegna þess að við tímdum ekki að setja eina lyftu í húsið. Við getum ekki einu sinni boðið þessum sama einstaklingi að sækja tónleika á jarðhæð hússins, því það er ekki aðgengilegt klósett í byggingunni.

Í Hamarsskóla er ekki hægt að vera í matsalnum vegna lélegrar hljóðvistar, og útisvæðið austan við skólann sandblæs bæði börn og bíla. Barnaskólinn er nánast að hruni kominn vegna vanrækslu á innra viðhaldi.

Allt eru þetta viðhaldsverkefni sem eru hvorki glæsileg né spennandi – og þar af leiðandi hunsuð. Við sem lifum í raunveruleikanum, þar sem þarf að fara sparlega með hverja krónu og væla út alls konar afslætti, erum sjaldnast talin mjög „sexý“. Við verðum oft að sleppa auka prjáli til að sinna því sem virkilega þarf að gera, svo húsin okkar haldist í lagi. Það er auðvitað miklu meira „sexý“ að fá sér nýtt sófasett og borð í stíl heldur en að skipta um ofn, þó það sé nauðsynlegt til að halda hita á heimilinu.

Þarf Vestmannaeyjabær ekki aðeins að endurskoða áherslur sínar? Vera minna upptekin af því að vera „sexý“ og taka frekar á praktískum málum? Þá þyrftum við ekki lengur að geyma hjólastólinn í kjallaranum.

 

Höfundur er útsvarsgreiðandi í Vestmannaeyjum,
Ágúst Erling Kristjánsson

Nýjustu fréttir

Stórskipakantur mikilvægur í mögulegri fóðurframleiðslu
Stórleikur í Eyjum – toppslagur ÍBV og Vals
Prófkjör framundan hjá sjálfstæðismönnum í Eyjum
Vara við áhrifum samgönguáætlunar
Í dag eru 53 ár frá upphafi Heimaeyjargossins
Bærinn í samstarf við Markaðsstofu Suðurlands
Alex Freyr Hilmarsson íþróttamaður Vestmannaeyja
Tvíþætt staða orkuskipta
Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.