Áður en ég varð AKP í Vestmannaeyjum bjó ég í Hafnarfirði. Ég starfaði í 101 Reykjavík. Allir vita sem vilja að umferðin í frá þessum tveimur stöðum á morgnanna og síðdegis er ekkert minna en helvíti fyrir andlega heilsu hvers manns. Fastur í fyrsta gír í 15 kílómetra, bíllinn ískaldur og eina sem hægt er að hlusta á er morgunútvarp rásanna þar sem þunglyndið er yfirdrepandi. Allt er alltaf að fara til fjandans. Heilinn er svo ofboðslega klókur að hann telur manni trú um að þetta sé bara allt í lagi. Það sé bara allt í lagi að eyða tveimur klukkustundum á dag í samgöngur til og frá vinnu. Vegna þess að ef hann myndi leyfa sér að sjá hversu raunverulega þunglynt það er, þá myndi líkaminn líklega andast og hrörnunin yrði óyfirstíganleg. Við erum nefnilega ansi góð í að umbera ástand og telja það eðlilegt og sjá það ekki fyrr en ástandið breytist eða við færum okkur til. Jafnvel þá er það orðið of seint.
Þegar ég flutti til Eyja þá fór ég í hvert skipti út á dekk í Herjólfi og dáðist að Heimakletti og innsiglingunni, sem hlýtur að vera ein sú fallegasta í heiminum. Í marga mánuði var ég eins og túristi á dekkinu og á í símanum mínum líklega nálægt 500 myndum af innsiglingunni einni saman.
Ég eignaðist líka tvo klukkutíma aukalega í daginn og eitt sinn tók ég tímann, frá því að stíga upp í bíl heima hjá mér og þar til ég steig úr honum fyrir utan skrifstofuna. 1 mínúta og 34 sekúndur. Ég sendi þetta á vini mína í Reykjavík. Montaði mig af lífsgæðunum.
Ég get bókað rástíma, á einum fallegast golfvelli í heimi, með tíu mínútna fyrirvara. Ekki alltaf. En oft. Ég setti alltaf mynd í story á Instagram þar sem sást í golfhanskann, golfsettið og Herjólfsdal. Aftur var ég að monta mig. „Sjáiði hvað ég hef það fínt, þið upp á landi!“
Ég er að gera upp hundrað ára gamalt hús. Ég átti bara eitt skrúfjárn þegar við fengum það afhent. Ég hafði aldrei smíðað neitt, sagað lítið og mín helstu afskipti af rafmagni var að skipta reglulega um ljósaperur. Í dag segi ég ekki að ég hafi gert upp miðhæðina. Það var ég og Jón Ben í Húsasmiðjunni sem gerðum upp miðhæðina. Ef ekki væri fyrir hann þá væri ég líklega enn að gúggla hvað gipsplata er.
Ég, ásamt Bigga vini mínum, stofnuðum Hljómey tónlistarhátíð fyrir fjórum árum. Hugmyndin var háð því að fá fólk til að opna stofur sínar og hleypa ókunnugum inn eina kvöldstund í apríl. Fáránleg hugmynd. Eða kannski geggjuð hugmynd. Ekki einn íbúi hefur tekið illa í að aðstoða okkur og stuðningurinn við verkefnið hefur verið fáránlega mikill.
Ég þurfti fljótlega eftir að við fluttum að fara á fjóra staði fyrir eiginkonuna og heimilið. Ég þurfti að sækja nýtt kolsýruhylki, fara í Bónus að versla í kvöldmatinn, ÁTVR að kippa upp einni rauðvín og síðan í Húsasmiðjuna að ná í nýtt stormjárn í gluggann. Þetta tók í heildina 15 mínútur. Fimmtán mínútur. Þetta hefði tekið að minnsta kosti klukkutíma í Reykjavík. Konan var steinhissa þegar ég kom heim og hélt, eins og oft, að ég hefði gleymt einhverju. Þarna fyrst hugsaði ég, hvað á ég að gera við allan þennan tíma?
Ég hef getað tekið göngutúr, búandi í miðbæ Vestmannaeyja, þar sem ég get fengið sérlagaðan úrvals Vestmannaeyskan bjór, borðað mat á heimsmælikvarða, keypt mér svo ísskáp, látið raka mig og endað svo göngutúrinn á tuðruferð í Klettshelli. Gæti þetta allt. Hef ekki gert þetta allt. En ég gæti það. Það er punkturinn.
Síðan hafa liðið nokkur ár. Allt í einu fór allt þetta að víkja fyrir angri út í eitthvað fólk sem ég þekki ekki og starfar hjá Vegagerð ríkisins. Ég fór að láta taugakerfið mitt bregðast við fréttum af strandhöfn á Suðurlandi. Höfn sem ég hef ekkert um að segja.
Ég fór síðan að láta taugakerfið mitt bregðast við allskonar öðrum hlutum. Ég td. þoli ekki austanátt í dag. Bara þoli hana ekki og hún er mjög ríkjandi í Eyjum. Af hverju þoli ég hana ekki? Bara. Þetta er bara afstaða sem ég ákvað einn daginn að taka.
Um daginn stóð ég mig að því að pirra mig á bílnum fyrir framan mig á leið í vinnu. Hann keyrði svo hægt. Gerði það að verkum að ég var 1 mínútu og 56 sekúndur í vinnuna. Ég steig úr bílnum pínu irreteraður.
Svo er ég löngu hættur að fara út á dekk að skoða innsiglinguna.
Fyrsta myndin sem ég tók úr efri hæðinni á húsinu okkar var tignalegur Heimaklettur. „Sjáiði hvað útsýnið er stórkostlegt.“ Það var textinn með myndinni sem ég sett út á internetið fyrir fylgjendur mína. Þeir telja reyndar í tugum en ekki hundruðum. Dagarnir líða og þegar ég kíki út um sama glugga í dag, er Heimaklettur þarna, en ég er hættur að sjá hann.
Kannski ætti ég bara að líta upp oftar og sjá Heimaklett á ný. Hann er nefnilega ennþá þarna.
Guðmundur Jóhann Árnason



















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst