Á síðasta fundi bæjarráðs var tekið fyrir erindi frá Sögusetrinu 1627. Í erindinu var óskað eftir samstarfi um hlutverk og aðkomu bæjarins í tilefni af því að árið 2027 verða 400 ár liðin frá Tyrkjaráninu í Eyjum.
Fram kemur í erindinu að af því tilefni muni Sögusetrið 1627 standa fyrir vandaðri, fjölbreyttri og veglegri þriggja daga dagskrá dagana 16. – 18. júlí til að minnast þeirra sögulegu atburða sem hér urðu og höfðu margþætt áhrif á sögu Vestmannaeyja og Íslands alls. Þótt enn séu rúm tvö ár þar til atburðanna verður minnst er undirbúningur þegar kominn vel á veg enda nauðsynlegt að hafa góðan tíma til ráðstöfunar þar sem undirbúningur sumra atriða dagskrárinnar er mjög tímafrekur.
Meginþættir dagskrárinnar eru áætlaðir þessir:
1. Alþjóðleg ráðstefna um sjórán, mansal og þrælahald á 17. öld með sérstöku
tilliti til Tyrkjaránsins 1627. Stefnt er að því að ráðstefnan verði tvíþætt og
haldin í Reykjavík og Vestmannaeyjum.
2. Útgáfa og endurútgáfa 2-3 rita um Tyrkjaránið.
3. Sýning á heimildum og öðru sem tengjast ráninu.
4. Þátttaka skóla bæjarins og félagasamtaka í dagskránni.
5. Tyrkjaránsganga og Tyrkjaránshlaup.
6. Landakirkja og jafnvel þjóðkirkjan munu með einhverjum hætti tengjast dagskránni.
Þegar hefur verið haft óformlegt samband við menningarmálaráðuneytið og er fólk þar á bæ, bæði ráðuneytisstjóra og ráðherra kunnugt um fyrirhugaða dagskrá. Fulltrúar Sögusetursins munu þar leggja áherslu á að ríkið komi með einhverjum hætti að dagskránni enda er Tyrkjaránið 1627 mikill atburður í sögu lands og þjóðarinnar allrar.
Sögusetrið gengur út frá því að Vestmannaeyjabær vilji með einhverjum hætti minnast atburðanna 1627 á 400 ára minningarárinu 2027. Sögusetrinu væri það mikill heiður að fá að eiga samstarf um hlutverk og aðkomu bæjarins vegna minningarársins.
Þess vegna óskar Sögusetrið með bréfi þessu eftir því að bæjaryfirvöld ræði málið og ákveði hvort og þá með hvaða hætti þau telja að þessu samstarfi verði sem best háttað. Sögusetrið er að sjálfsögðu reiðubúið til að veita allar nánari upplýsingar sé þess óskað, segir í erindinu sem Ragnar Óskarsson kvittar undir.
Bæjarráð tók vel í erindið og fól framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að ræða framgang málsins við bréfritara.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst