Tölvugerð mynd sem sýnir um 180 metra langt flutningaskip, hafnarsvæði, gámasvæði ásamt akvegi að svæðinu. Myndin er gerð af Eyjar.net.
Áform bæjaryfirvalda um breytt skipulag á hraunsvæðinu fyrir framan Ystaklett hefur vakið mikil og hörð viðbrögð meðal bæjarbúa. Innsiglingin, sem hingað til hefur vakið hrifningu gesta fyrir náttúrufegurð, mun fá nýja ásýnd. Þungaumferð mun aukast um bæinn, en allar afurðir Vinnslustöðvarinnar og Ísfélagsins færu þá um bæinn ásamt gámum til og frá Samskip og Eimskip. Á móti kæmi að styttra væri að aka afurðum Laxeyjar til útflutnings.
Hvaða vandamál er verið að leysa?
Samkvæmt þeim upplýsingum sem Eyjar.net kemst næst er talin þörf á að um 180 metra löng flutningaskip geti haft snúningssvæði og lagst að bryggju. Núverandi hafnarskipulag leyfir það ekki. Þá þarf að fjölga leguplássum fyrir fiskiskip, bæta aðstöðu skemmtiferðaskipa ásamt því að gott væri að hafa stærra gámarými.
Lausnir sem kynntar hafa verið
Úr skipulagslýsingu fyrir breytingu á aðalskipulagi Vestmannaeyja sem kynnt var nýlega.
Lausn bæjaryfirvalda hefur verið að kynna nýtt skipulag sem gerir ráð fyrir stórskipakanti á mót við Ystaklett ásamt löngum viðlegukanti sem þverar Löngu. Fljótlega var þó hugmyndin um viðlegukant við Löngu blásin út af borðinu eftir mótmæli m.a. aðila í ferðaþjónustu.
Vilja skoða aðrar lausnir
Eyjar.net spurði Eyþór Harðarson, oddvita sjálfstæðismanna út í málið.
„Því miður er stærð hafnarinnar takmörkuð og vandasamt að leysa þá þörf sem allir hagaðilar hafa bent á í nýlegri úttekt sem Efla vann fyrir Vestmannaeyjabæ. Þar kom fram að viðlegukantar fyrir stærri skipin og gámasvæði er það sem helst er nefnt. Því miður fór umræðan úr böndunum og framkvæmda- og hafnarráð náði ekki að kynna almennilega þá kosti sem taldir voru álitlegastir í skýrslunni. Mitt álit þróast auðvitað með meiri upplýsingum frá sérfræðingum.“
segir Eyþór og bætir við að hann telji skynsamlega lausn að stytta Hörgeyragarð um 90 metra og fá þannig gott snúningssvæði fyrir stóru skipin. „Samkvæmt mælingum Vegagerðarinnar ætti sú aðgerð ekki að gera höfnina verri með tilliti til ókyrðar svo nokkru nemi“.
Með styttingu Hörgeyrargarðs um 90 metra fæst snúningsflötur auðveldlega upp á 220 metra. Þá er auðsótt legupláss með að lengja Nausthamarsbryggju um 65 metra.
Eyþór telur nauðsynlegt að skoða alla kosti sem eru í stöðunni og hugsa út fyrir boxið með lausnir innan hafnar en bendir á að engar ákvarðanir hafi verið teknar ennþá um viðlegukant í innsiglingunni. „Ég sé ekki fyrir mér góða lausn í því að flytja núverandi gámasvæði á hafnarsvæðinu austur á hraun.“
180 metra löng flutningaskip gætu auðveldlega lagst að bryggju á Skipalyftukanti ef Gjábakkakantur er lagfærður og færður suður eins og sést á myndinni. Þá er auðveldlega hægt að koma fyrir Rampi vestur af Skipalyftukanti en þá væri hægt að þjónusta skip Smyril Line sem koma að bryggju í Þorlákshöfn.
Þá telur Eyþór að nettur viðlegukantur í Skansfjöru væri ekki stór framkvæmd og ætti að geta verið sjálfbær framkvæmd. „Þetta snýst auðvitað allt um framkvæmdakostnað og tekjur sem koma á móti.“
Stór skemmtiferðaskip ættu að leggjast að fallegri staurabryggju á Skansfjöru sem þyrfti ekki að vera svo stór. Væri ferðalag ferðamanna þaðan í bæinn draumi líkast fyrir þá.
Eyþór leggur þó áherslu á að þessar hugmyndir þurfi að skoða nánar og þróa með sérfræðingum á þessu sviði og alls ekki láta þá sem eru háværastir á samfélagsmiðlunum stjórna uppbyggingu hafnarinnar. Þetta er hagsmunamál allra Eyjamanna og mikilvægt að vel takist til í framtíðaruppbyggingu hafnarinnar.
Sjóveiki er misræmi milli skynfæra líkamans sem senda boð til heilans um hreyfingu – kyrrstöðu.
Þegar einstaklingur er úti á sjó þá nema skynjarar í vökvafylltum gangi í innra eyra hreyfingu og senda boð til heilans að einstaklingur sé á hreyfingu. Augun senda hins vegar boð til heilans um að viðkomandi sé kyrr. Heilinn á erfitt með að vinna úr þessum misvísandi og ósamræmdu upplýsingum og sendir skilaboð til magans um að tæma sig – þ.e. veldur uppköstum.
Einkenni sjóveiki eru þreyta, ógleði, svimi, svitakóf og uppköst.
Góð ráð til að hindra sjóveiki:
Góð hvíld daginn fyrir brottför. Að fara seint að sofa og snemma um borð í bát fer ekki vel saman ef fólk er hætt við sjóveiki.
Forðist áfenga drykki daginn fyrir brottför
Forðist djúpsteiktan, brasaðan eða saltan mat daginn fyrir siglingu.
Borðið góðan morgunverð. Borðið gjarnan hvítt brauð, hafragraut og ávexti þó ekki sítrus ávexti.
Forðist mikið koffein. Mikið kaffi er ekki það sem maganum líkar fyrir sjóferð.
Hafðu mat með þér á sjó. Gott er að hafa samlokur með kjúklingi eða kalkún. Kjötið er fitusnautt og brauðið er róandi í maga. Hafðu endilega eitthvað til að grípa í sem er létt í maga. Bananar eru mjög góðir til að narta í ef þú finnur fyrir ógleði en einnig er gott að hafa létt kex eða annað sem er ekki salt eða fitumikið.
Drekkið vel af vatni en einnig er gott er að drekka kóla drykki eða engiferöl í sjóferðinni
Lyf við sjóveiki þ.e. lyf sem slá á einkennin og fást án lyfseðils í apóteki.
Koffínátín – fæst án lyfseðils
Postafen – fæst án lyfseðils
Scopolamin plástur – lyfseðilsskyltEinnig má fá armbönd gegn ferðaveiki sem sumir telja að hjálpi.
Önnur ráð:
Engifer er jurt sem nýlega hefur fengið aukna athygli vegna þess að því er haldið fram að hún geti slegið á ógleði sem fylgir sjóveiki. Til forna tuggðu kínverskir sjómenn engiferrót til að draga úr sjóveiki. Flest lyf sem virka á ógleði verka á heilann en engifer virkar aðeins á magann. Ráðlagt er að taka 1000 mg. hylki hálftíma fyrir brottför. Einnig má taka eitt eða tvö 500 mg. hylki sem eru til viðbótar á ferðalaginu. Ekki er ráðlagt að drekka coke með engifertöflum.
Piparminta og te eru einnig gömul húsráð við ferðaveiki.
Sumum finnst betra að taka sýrujafnandi töflur, Alminox eða slíkt áður en þú heldur á sjó og þá er gott að hafa box með út á sjó.
Hvar í skipinu er best að vera o.fl.
Minna finnst fyrir hreyfingu og veltingi ef maður er staddur næst miðju bátsins.
Mörgum finnst gott að vera í kulda, t.d.að vera úti á dekki og láta vindinn leika um sig.
Matarlykt fer illa í þá sem hætt er við sjóveiki og einnig pústið frá bátnum.
Þungun:
Þungaðar konur sem þjást af sjóveiki mega nota koffinátín í litlum skömmtum en best er að ráðfæra sig við lækni eða lyfjafræðing. Þunguðum konum er ekki ráðlagt að nota engifer þar sem það er ekki staðfest hvort það geti haft skaðleg áhrif á fóstur.