Undir lok liðinnar viku var tilkynnt að nýr fríverslunarsamningur við Bretland væri í höfn. Útganga Bretlands úr ESB skapaði mikla óvissu og því voru tíðindin ánægjuleg. Bretar eru mikil vina- og samstarfsþjóð og á grundvelli EES-samningsins hefur markaðsaðgangur fyrir vörur frá Íslandi verið með ágætum. Það var því mikilvægt að tryggja að svo yrði áfram gagnvart Bretlandi utan ESB.
Einir stærstu viðskiptahagsmunir Íslands gagnvart Bretlandi felast í sjávarafurðum. Ríflega 60% af vöruútflutningi til Bretlands samanstanda af sjávarafurðum. Það hefði því mátt ætla að þar lægi þunginn í viðræðum við Breta um fríverslun, því fjölmörg tækifæri eru til sóknar.
Tímarnir breytast og menn og markaðir með. Aukin áhersla og metnaður Íslendinga á vinnslu sjávarafurða, til að auka verðmætasköpun enn frekar, kallaði á endurskoðun á gildandi markaðsaðgangi. Raunin er því miður sú, að háir tollar á einstaka sjávarafurðir hamla því verulega að vinnsla þeirra sé rekstrarlega möguleg hér á landi. Má þar helst nefna lax, karfa og ýmsar flatfiskategundir, en þessar afurðir eru að miklu leyti fluttar óunnar úr landi.
Þessu hefði verið hægt að breyta með betri markaðsaðgangi gagnvart Bretlandi. Í þeim fríverslunarsamningi sem var undirritaður var þetta, einhverra hluta vegna, ekki sótt. Tækifærin voru ekki gripin. Að þessu leyti veldur samningurinn vonbrigðum. Verðmæti, sem hægt hefði verið að sækja með bættum tollakjörum, verða ekki til.
Til að tryggja áframhaldandi góð lífskjör hér á landi þarf að auka enn frekar verðmætasköpun og útflutning. Sjávarútvegur gegnir þar mikilvægu hlutverki, enda má auka virði afurða enn frekar með aukinni vinnslu á Íslandi. Með nýjum fríverslunarsamningi er hins vegar ljóst að á því kann að verða bið.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst