Sorphirða og förgun var til umfjöllunar hjá bæjarráði Vestmannaeyja í gær. Þar var farið yfir punkta frá Brynjari Ólafssyni, framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs þar sem hann gerði grein fyrir framkvæmd á breyttu fyrirkomulagi sorphirðu sem er langt komin.
Einnig hefur sorphirða og förgun verið boðin út og bárust þrjú tilboð til bæjarins. Þau komu frá Íslenska gámafélaginu, Kubb og Terra. Mat á tilboðum liggur fyrir frá framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs og leggur hann til að hagstæðasta tilboðinu, sem er frá Terra, verði tekið.
Fram kemur í afgreiðslu bæjarráðs að áhersla sé lögð á að framkvæmdinni við innleiðingu ljúki sem fyrst. Þá samþykkti bæjarráð samhljóða að taka tilboði Terra. Framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs var falið að ganga frá samningi við Terra um sorphirðu og förgun.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst