Sigurbjörg ÁR, nýtt skip Ísfélagsins kom til Hafnafjarðar á laugardaginn. Það var Rammi sem tók ákvörðun um smíðina á sínum tíma og var Sigurbjörg hugsuð sem humar- og bolfiskveiðiskip sem átti að sjá starfseminni í Þorlákshöfn fyrir hráefni. Síðan hefur mikið breyst, humarveiðar bannaðar, starfsemin lögð niður í Þorlákshöfn og Rammi hefur sameinast Ísfélagi Vestmannaeyja og heitir í dag Ísfélag hf.
Sigurbjörg var smíðuð í Celiktrans-skipasmíðastöðinni í Istanbúl. Mesta lengd er 48,10 m og breidd 14 m. Aðalvél er MAN 1.795 kW, 800 snúningar á mínútu. Hjálparvélar eru tvær og bógskrúfa. Spilbúnaður er 4 togvindur, 3 gilsavindur, 6 grandaravindur, tvær pokavindur, átta bakstroffuspil og 2 akkerisspil ásamt hjálparvindum og dekkkrana. Vinnslubúnaður er fyrsta flokks og er sjálfvirkur búnaður sem setur afla í lest og landar, þannig að lestarvinna háseta er úr sögunni. Kælibúnaður tryggir fyrsta flokks hráefni. Siglingatæki eru frá Simberg en aflanemakerfi frá Marport. Íbúðir eru fyrir 15 manna áhöfn og öll aðstaða til fyrirmyndar. Gert er ráð fyrir tvöfaldri áhöfn. Kaupverð er ríflega 3,1 milljarður.
Sigurbjörgu er ætlað að koma í stað þriggja skipa, Jóns á Hofi ÁR, Fróða II ÁR og Ottós Þorlákssonar VE. Áætlað er að Dala Rafn verði gerður út á rækju sem er liður í endurskipulagningu útgerðarinnar.
Sigurbjörg var sjósett fyrir rétt ári og byrjar á að fara í slipp í botnhreinsun og málningu. Um leið verður skipið gert klárt og er reiknað með að það haldi til veiða í ágúst. Skipstjóri er Sigvaldi Páll Þorleifsson og yfirvélstjóri Þorfinnur Hjaltason. „Þetta er öflugt og gott skip, hönnun og búnaður fyrsta flokks. Vel fer um áhöfn og öll vinna til fyrirmyndar. Það er alltaf gaman að fá nýtt skip og tilhlökkunarefni að taka það í notkun,“ sagði Eyþór Harðarsson, útgerðarstjóri Ísfélagsins.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst