Brinks hefur verið fastur punktur í jarðvegsvinnu í Vestmannaeyjum í nær tvo áratugi. Við ræddum við Símon Þór Eðvarðsson, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, um upphafið, áskoranirnar og framtíðina – og hvað það er sem heldur honum við efnið dag eftir dag.
Frá einni gröfu í innkeyrslunni að öflugum rekstri
„Ég fékk mjög ungur bakteríuna fyrir þessum bransa,“ segir Símon Þór Eðvarðsson og brosir. Brinks var stofnað árið 2005, þegar Símon og eiginkona hans, Ella Sigga Björnsdóttir sáu tækifæri á markaðnum eftir að tvö eldri jarðvinnufyrirtæki höfðu sameinast.
„Við keyptum eina gröfu sem stóð í innkeyrslunni hjá okkur fyrstu vikurnar,“ rifjar hann upp. Símon þakkar Þórði á Skansinum mikið fyrir hvatningu og leiðsögn á fyrstu stigum rekstursins, þar hafi grunnurinn verið lagður.
Starfsemin fór rólega af stað en tók við sér með árunum. „Ég var einn fyrstu mánuðina, en vorið 2006 kom Pálmi Guðmunds til liðs við mig og við vorum tveir fyrstu árin.“
Í dag starfa fjórir til fimm hjá Brinks, og tækjakosturinn hefur stækkað verulega, fjórir vörubílar, fjórar gröfur af mismunandi stærðum og fjölbreyttur búnaður. Fyrirtækið sinnir öllum almennum jarðvinnufræðum, múrbroti og niðurrifi, bæði stórum og smáum verkefnum.
„Við höfum tekið þátt í mörgum stórum verkefnum fyrir sjávarútvegsfyrirtæki og sveitarfélagið, svo sem Eldheimum, nýju hrognahúsi Ísfélagsins, uppbyggingu Vinnslustöðvarinnar og varmadælustöð HS Veitna,“ segir Símon.
Eyjarnar bjóða bæði tækifæri og áskoranir
Að reka gröfuþjónustu á eyju með afmörkuðum markaði hefur sína sérstöðu. „Ég held að það sé mikill kostur að vera í Eyjum. Við komumst tiltölulega vel í gegnum hrunið 2007, því atvinnulífið hér hélt betur velli,“ segir Símon.
Hann bendir þó á að fjarlægðin við þjónustuaðila á fastalandinu geti verið áskorun. „Það er bæði tímafrekt og kostnaðarsamt að koma tækjum fram og til baka vegna viðgerða.“
Þrátt fyrir það hefur eftirspurn verið stöðug og samkeppnin hófleg, sem hefur skapað traustan rekstrargrundvöll.“ 
Tækni, öryggi og gott starfsfólk lykillinn að árangri
Brinks hefur lagt áherslu á að fylgja tækniþróuninni. „Við endurnýjum tækjakost reglulega og þá fylgja nýjar tölvu- og GPS-uppfærslur sem gera okkur kleift að vinna nákvæmar,“ útskýrir Símon.
Hann segir fyrirtækið einnig leggja mikla áherslu á öryggismál og fagmennsku í öllum verkefnum. „Við höfum verið einstaklega heppin með starfsfólk. Svona rekstur gengur ekki upp nema allir leggi sitt af mörkum.“
„Við ætlum að halda áfram á sömu braut, með sama dampi og sömu gæðum.“
Hann horfir bjartsýnn til framtíðar og útilokar ekki nýjar áskoranir. „Við erum alltaf með puttann á púlsinum og tilbúin að bregðast við nýjum tækifærum.“
Brinks hefur nú þegar byggt upp meira en 20 ára reynslu í bransanum, og Símon segir lærdóminn aldrei hætta. „Það er alltaf eitthvað nýtt að læra – enginn dagur er eins.“
Ástríða frá barnsaldri og gleði í sandkassanum
Símon hefur verið heillaður af vinnuvélum frá barnsaldri. Hann fékk vinnuvélaréttindi árið 1988 og meirapróf 1991. „Ég byrjaði að vinna með Þórði sumarið 1994 og þegar tækifærið gafst 2005 stökk ég á það.“
Þegar hann er spurður um ráð til ungs fólks í greininni segir hann: „Hafðu bókhaldið á hreinu, byrjaðu smátt og lærðu fagið. Byggðu upp tengsl og haltu fagmennsku í fyrirrúmi.“
Og minnisstæðustu stundirnar? „Það var þegar ég setti í sundur vatnslögn tvisvar á gamla Fiskiðjureitnum – þá varð þessi glæsilegi gosbrunnur sem vakti mikla lukku!“
Símon brosir. „Maður vex aldrei upp úr sandkassaleiknum og ég hef enn jafn gaman í vinnunni.“





















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst
Ekki liggja fyrir nýjar mælingar
Hvað er sjóveiki?
Sjóveiki er misræmi milli skynfæra líkamans sem senda boð til heilans um hreyfingu – kyrrstöðu.
Þegar einstaklingur er úti á sjó þá nema skynjarar í vökvafylltum gangi í innra eyra hreyfingu og senda boð til heilans að einstaklingur sé á hreyfingu. Augun senda hins vegar boð til heilans um að viðkomandi sé kyrr. Heilinn á erfitt með að vinna úr þessum misvísandi og ósamræmdu upplýsingum og sendir skilaboð til magans um að tæma sig – þ.e. veldur uppköstum.
Einkenni sjóveiki eru þreyta, ógleði, svimi, svitakóf og uppköst.
Góð ráð til að hindra sjóveiki:
Lyf við sjóveiki þ.e. lyf sem slá á einkennin og fást án lyfseðils í apóteki.
Önnur ráð:
Hvar í skipinu er best að vera o.fl.
Þungun:
Þungaðar konur sem þjást af sjóveiki mega nota koffinátín í litlum skömmtum en best er að ráðfæra sig við lækni eða lyfjafræðing.
Þunguðum konum er ekki ráðlagt að nota engifer þar sem það er ekki staðfest hvort það geti haft skaðleg áhrif á fóstur.