– Páll Scheving Ingvarsson skrifar:
Ég þreytist ekki á því að minnast á það hversu þakklát við getum verið fyrir tímasetninguna á upphafi eldgossins 1973. Nú þegar 50 ár eru liðin frá þeim tímapunkti á það ennþá vel við.
Við vorum heppin að eldsumbrotin hófust klukkan 2 um nótt. Það þýddi að fjölskyldur voru saman, heima. Börn voru hjá foreldrum sínum, það gaf öryggistilfinningu og viðbrögð einkenndust því af ákveðnu öryggi og yfirvegun. Það var mikilvægt. Minningin frá þessu upphafi er nefnilega alls ekki svo slæm, ef miðað er við það hversu óhugnalegir atburðir voru að hefjast.
Ef eldgos hefði hafist kl. 2 að degi til er ég hræddur um að staðan hefði orðið önnur og talsvert erfiðari. Börn og foreldrar aðskilin, fólk við vinnu og börn í skóla eða úti í leik. Það er ekki óhugsandi og kannski eðlilegt að talsverður ótti hefði gripið um sig, sem skapar oft ringulreið, óöryggi og ekki síst rangar ákvarðanir. Það er ekki ólíklegt að það hefði myndast kaos!
Ég er viss um að minning okkar af upphafi eldgossins væri almennt ekki eins góð, ef tímasetningin hefði ekki verið mjög heppileg.
Páll Scheving Ingvarsson
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst