Vald og ábyrgð
Íris í Lit
Íris Róbertsdóttir
Íris Róbertsdóttir

Það er grunnregla í stjórnsýslu og stjórnskipan að aldrei má aðskilja vald og ábyrgð. Sá sem fer með endanlegt vald ber líka endanlega ábyrgð.

Í grein eftir bæjarfulltrúa sem birtist á netmiðlum síðasta föstudag var því haldið fram, að við bæjaryfirvöld sé að sakast um hvernig Vegagerðin stendur að dýpkun Landeyjahafnar. Ef þetta væri réttmæt ábending þá myndu nú heldur betur skipast veður í lofti. Þá væri samanlagt klúður Vegagerðarinnar í Landeyjahöfn – frá því að hún var opnuð fyrir 8 árum – allt á ábyrgð þeirra sem fóru fyrir bæjarstjórn á því árabili. Er réttmæt að skella skuldinni á það fólk? Nei, auðvitað ekki.

Vegagerðin verður ein og sjálf að bera ábyrgð á því sem hún gerir eða lætur ógert. Bæjarstjórn öll hefur þrýst eins mikið á Vegagerðina í þessum dýpkunarmálum eins og mögulegt er og ég þykist viss um að fyrri bæjarstjórn gerði það líka. Á fundum, með bréfum og símtölum höfum við síðustu vikur komið sjónarmiðum okkar eins kröftuglega á framfæri og kostur er og fengið til liðs við okkur í þeim efnum þingmenn kjördæmisins. Ekki síst höfum við með miklum þunga bent á reynslu Eyjamanna af þeim verktaka sem nú hefur verið samið við um dýpkun. Sá samningur tekur gildi 2019 og er til 3ja ára. Vegagerðinni var gert algjörlega ljóst að þessi framganga málsins var í fullkominni andstöðu við vilja og skoðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja. Við teljum að útboðið sjálft hafi verið meingallað og fráleitt að bæjaryfirvöld skyldu ekki hafa verið höfð með í ráðum þegar útboðsskilmálar voru ákveðnir. Úr því sem komið var vildum við að öllum tilboðum yrði hafnað og ráðist yrði í annað útboð á réttum forsendum. Við þessum óskum varð Vegagerðin ekki og hennar er valdið – og ábyrgðin.

Þess ber líka að geta að Vegagerðin var búin að fallast á mjög eindregna ósk okkar um að dýpka út nóvember – en ekkert varð af því eins og kunnugt er; Belgarnir farnir og Björgun gat ekki mannað dýpkunarskip.

Við munum sannarlega halda Vegagerðinni við efnið á næstunni eins og við framast getum og treystum á stuðning bæjarbúa í þeim efnum. Það hjálpar ekki í þeirri baráttu ef einstakir bæjarfulltrúar vilja létta ábyrgðinni af Vegagerðinni og færa hana yfir á bæjaryfirvöld. Þá er búið að aðskilja vald og ábyrgð – og engin verður fegnari en ”gerandinn” sem sé Vegagerðin.

Stöndum saman og vinnum saman.

Íris Róbertsdóttir
Bæjarstjóri Vestmannaeyja

Nýjustu fréttir

Sýningin Geological Rhapsody opnar á morgun
Nýtt fyrirkomulag í Uppbyggingarsjóði Suðurlands
Íþróttahátíð ÍBV í kvöld
Bærinn niðurgreiðir heimsendan mat um 53%
Sigurður Guðmundsson á Hljómey í ár
Jákvæðar umræður um Eyjagöng á Hvolsvelli
Eyjakona og drottning íslenskrar knattspyrnu
Bæjarstjórnarfundur í beinni

Góð ráð fyrir siglingu

Sjóveiki

Hvað er sjóveiki?

Sjóveiki er misræmi milli skynfæra líkamans sem senda boð til heilans um hreyfingu – kyrrstöðu.

Þegar einstaklingur er úti á sjó þá nema skynjarar í vökvafylltum gangi í innra eyra hreyfingu og senda boð til heilans að einstaklingur sé á hreyfingu. Augun senda hins vegar boð til heilans um að viðkomandi sé kyrr. Heilinn á erfitt með að vinna úr þessum misvísandi og ósamræmdu upplýsingum og sendir skilaboð til magans um að tæma sig – þ.e. veldur uppköstum.

Einkenni sjóveiki eru þreyta, ógleði, svimi, svitakóf og uppköst.

Góð ráð til að hindra sjóveiki:

  • Góð hvíld daginn fyrir brottför. Að fara seint að sofa og snemma um borð í bát fer ekki vel saman ef fólk er hætt við sjóveiki.
  • Forðist áfenga drykki daginn fyrir brottför
  • Forðist djúpsteiktan, brasaðan eða saltan mat daginn fyrir siglingu.
  • Borðið góðan morgunverð. Borðið gjarnan hvítt brauð, hafragraut og ávexti þó ekki sítrus ávexti.
  • Forðist mikið koffein. Mikið kaffi er ekki það sem maganum líkar fyrir sjóferð.
  • Hafðu mat með þér á sjó. Gott er að hafa samlokur með kjúklingi eða kalkún. Kjötið er fitusnautt og brauðið er róandi í maga. Hafðu endilega eitthvað til að grípa í sem er létt í maga. Bananar eru mjög góðir til að narta í ef þú finnur fyrir ógleði en einnig er gott að hafa létt kex eða annað sem er ekki salt eða fitumikið.
  • Drekkið vel af vatni en einnig er gott er að drekka kóla drykki eða engiferöl í sjóferðinni

Lyf við sjóveiki þ.e. lyf sem slá á einkennin og fást án lyfseðils í apóteki.

  • Koffínátín – fæst án lyfseðils
  • Postafen – fæst án lyfseðils
  • Scopolamin plástur – lyfseðilsskyltEinnig má fá armbönd gegn ferðaveiki sem sumir telja að hjálpi.

Önnur ráð:

  • Engifer er jurt sem nýlega hefur fengið aukna athygli vegna þess að því er haldið fram að hún geti slegið á ógleði sem fylgir sjóveiki. Til forna tuggðu kínverskir sjómenn engiferrót til að draga úr sjóveiki. Flest lyf sem virka á ógleði verka á heilann en engifer virkar aðeins á magann. Ráðlagt er að taka 1000 mg. hylki hálftíma fyrir brottför. Einnig má taka eitt eða tvö 500 mg. hylki sem eru til viðbótar á ferðalaginu. Ekki er ráðlagt að drekka coke með engifertöflum.
  • Piparminta og te eru einnig gömul húsráð við ferðaveiki.
  • Sumum finnst betra að taka sýrujafnandi töflur, Alminox eða slíkt áður en þú heldur á sjó og þá er gott að hafa box með út á sjó.

Hvar í skipinu er best að vera o.fl.

  • Minna finnst fyrir hreyfingu og veltingi ef maður er staddur næst miðju bátsins.
  • Mörgum finnst gott að vera í kulda, t.d.að vera úti á dekki og láta vindinn leika um sig.
  • Matarlykt fer illa í þá sem hætt er við sjóveiki og einnig pústið frá bátnum.

Þungun:

Þungaðar konur sem þjást af sjóveiki mega nota koffinátín í litlum skömmtum en best er að ráðfæra sig við lækni eða lyfjafræðing.
Þunguðum konum er ekki ráðlagt að nota engifer þar sem það er ekki staðfest hvort það geti haft skaðleg áhrif á fóstur.

Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.