Ísfisktogarinn Bergey VE lagðist að bryggju í Vestmannaeyjum í gærmorgun með fullfermi og var uppistaða aflans ufsi. Jón Valgeirsson skipstjóri segir í samtali við
heimasíðu Síldarvinnslunnar að túrinn hafi einkennst af brælu. „Það gekk vel að veiða ef tekið er tillit til þess að við vorum á sífelldum flótta undan veðri. Við byrjuðum í Sláturhúsinu og síðan færðum við okkur vestur á Öræfagrunn, Kötlugrunn og loks í Reynisdýpið. Það var ekkert hægt að kvarta undan aflanum en veðrið hefði mátt vera miklu betra. Aflanum verður landað í dag og veðurútlit mun síðan hafa mikið að segja um framhaldið,“ segir Jón.
Systurskipið Vestmannaey VE hefur verið að karfaveiðum fyrir sunnan og vestan Eyjar. Afli hefur verið ágætur á daginn en lélegur yfir nóttina. Gert er ráð fyrir að skipið fylli í kvöld og landi í Eyjum.