Bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum tóku þá ákvörðun í lok árs 2023 að gervigras yrði sett á Hásteinsvöll. Þó svo ekki sé fullur einhugur um þá ákvörðun innan ÍBV íþróttafélags þá þarf að vinna með þá niðurstöðu svo hún skili sem mestum ávinningi fyrir iðkendur knattspyrnu hér í Eyjum. Þær skoðanir sem voru uppi áttu það sameiginlegt að gervigras væri lausnin, en sumir töldu gervigras á Hásteinsvöll vera lausnina á meðan aðrir töldu lausnina vera gervigras í fullri stærð með stækkun núverandi knatthús.
Nú hefur Vestmannaeyjabær auglýst verkið með útboði þar sem hefja á framkvæmdir í lok þessa árs og að fullgerður völlur verði tekinn í notkun í byrjun maí 2025. Það er verðugt markmið en er það raunhæft? Er einnig verið að bjóða út nýtt gervigras með öllum þeim búnaði sem er nauðsynlegur og skv. þeim kröfum sem gilda um knattspyrnuvelli skv. reglugerðum og leyfiskerfi KSÍ? Skoðum þessa þætti betur og hvernig þessi framkvæmd hefur áhrif á komandi knattspyrnutímabil kvenna- og karlaliðs ÍBV.
Fyrst varðandi tímasetningu framkvæmda og þá tímaáætlun sem útboðið miðast við er vert að skoða reynsluna hérlendis á undanförnum árum varðandi þá velli sem hafa verið lagðir nýju gervigras, hvort sem er um endurbætur eða nýframkvæmd að ræða.
Yfir heildina má segja að engri framkvæmd hafi nást að ljúka á þeim tímamörkum sem settar voru og fyrir því eru aðallega tvær ástæður. Annars vegar er það tíðarfarið hér á landi á þeim tíma sem miðað er við að leggja niður gervigrasið. Yfirleitt er miðað við apríl eða maí og þá er staðreyndin sú að ekki hefur nást að klára þessa velli á þeim tíma. Sem dæmi þá léku KA menn á Dalvíkurvelli fram á mitt sumar 2022 áður en þeir gátu tekið sinn gervigrasvöll í notkun. Það sama má segja um Vestramenn á Ísafirði á þessu ári, Tindastólskonur á Sauðárkróki, Lambhagavöllur í Úlfarsárdal og fleiri dæmi eru til. Þessir vellir eiga einnig það sammerkt að gervigras á þessa velli er að mestu leyti frá sama aðila sem þýðir það að erfitt getur verið fyrir þann aðila út frá tíðarfari að hafa alla vellina tilbúna á sama tíma.
Núna eru nokkrir nýir vellir í bígerð t.d. í Hveragerði, á Hvolsvelli, í Mosfellsbæ og mögulega í Frostaskjóli og því er möguleg sú staða að þeir vellir verði allir unnir á sama tímabili og af sama aðila . Því eru möguleikar á því að framkvæmdin hér í Eyjum dragist fram á mitt sumar 2025 sem þýðir að kvenna- og karlalið félagsins gætu þurft að leik heimaleiki sína á öðrum velli sbr. Vestramenn í sumar. Mögulega er hægt að ræða e-h lausnir við KSÍ en skv. þeim upplýsingum sem ég hef þá hafa engin formleg samskipti verið frá stjórnendum ÍBV íþróttafélags við þá sem sjá um mótamálin hjá KSÍ til að upplýsa um þessa framkvæmd.
Á komandi tímabili leikur karlalið félagsins á ný í Bestu deildinni og kvennaliðið er að setja markmiðið að komast upp í Bestu deildina. Mikilvægi þess að bæði lið geti leikið sína heimaleiki frá byrjun tímabils á Hásteinsvelli er því verulegt. Byrjun tímabilsins segir mikið til um það hvar liðin verða að berjast í sínum deildum. Um miðjan september er deildarkeppni kvennaliðsins langt komin og umspilskeppni karlaliðsins að hefjast. Það er því vert að skoða af fullri alvöru að hefja framkvæmdir við völlinn t.d. eftir miðjan september 2025. Þá ætti jarðvinna og lagning gervigrass ekki að taka lengri tíma en 2 mánuði svo nýtt gervigras væri tilbúið um miðjan nóvember 2025. Vert er einnig að kynna sér hvort hitastig seinni hluta september og út október sé hærra en í apríl, því hitastigið er það sem skiptir máli þegar kemur að því að leggja niður gervigrasið. Aðalmálið er að gervigras á Hásteinsvöll nýtist fyrir vetrartímabilið 2025/2026 þó svo að tímaáætlunin myndi færast fram á haustið.
Næst er þá að velta fyrir sér þeim kröfum sem gilda um knattspyrnuvelli sem eru samþykktir skv. reglugerð KSÍ um knattspyrnuleikvanga. Hásteinsvöllur er völlur sem er í B-flokki en það er sú krafa sem gildir um velli sem leikið er á í efstu deild karla. Í umræddri reglugerð er fyrirskrifað hvaða útbúnaður völlur skal vera útbúinn sbr. grein 8.6 og grein 8.7:
Í greininni er sagt að leikvöllur skal útbúinn nauðsynlegum búnaði s.s. jarðvegshitun undir velli. Ástæðan fyrir að ég tek þann útbúnað fyrir er sú staðreynd að í útboði Vestmannaeyjabæjar er ekki lagt upp með að lagðar verði hitalagnir undir völlinn eins og er undantekningarlaust gert með alla keppnisvelli sem lagðir eru gervigrasi. Það er grunnforsendan til að Hásteinsvöllur nýtist sem bætt vetraraðstaða fyrir knattspyrnuna hér í Eyjum. Hitalagnir undir vellinum eru fyrst og fremst til að uppfylla eftirfarandi tvö atriði:
Umrætt gervigras mun væntanlega vera lagt skv. þeirri grunnforsendu að bæta vetraraðstöðu knattspyrnunnar og þá þarf að vera til staðar flóðlýsing leikvallar. Það er einnig staðreynd að nú þegar tekjur knattspyrnufélaga frá sjónvarpsréttindum fara hækkandi, eru kröfur til gæða lýsingar á leikvöllum meiri en verið hefur. Í grein 41 – Flóðlýsing í sömu reglugerð er skýrt frekar hvaða kröfur eiga við eftir því í hvaða flokki umræddur leikvangur er. Þar sem krafa er um að allir leikvangar í efstu deild séu í flokki B þá gildir umrædd krafa um leikvanga í þeim flokki í grein 41.3:
Í greininni er ekki gerð krafa um að leikvellir séu búnir flóðlýsingu en þar sem gervigras á Hásteinsvelli er aðallega til að bæta vetraraðstöðu knattspyrnunnar segir sig sjálft að flóðlýsing þarf að vera til staðar. Hin staðreyndin er að keppnistímabil í efstu deildum karla og kvenna er að lengjast í báða enda og þá er verið að leika leiki á þeim tímum ársins að lýsingar er þörf. Til að knattspyrnan hjá ÍBV eigi möguleika á þeim tekjum sem sjónvarpsréttindin skila þá verður flóðlýsingin að uppfylla ákvæðið hér að ofan 800 Lux. Hins vegar er það svo skv. nýjustu upplýsingum frá Vestmannaeyjabæ að völlurinn verður útbúinn 500 Lux. Það hlýtur að vera misskilningur af hendi bæjaryfirvalda því umrætt ákvæði reglugerðarinnar er skýrt. Því er mikilvægt að forsvarsmenn sveitarfélagsins hafi samband við KSÍ til að fá þetta staðfest.
Út frá því sem ég hef sett fram þá er mikilvægt að bæjaryfirvöld og ÍBV íþróttafélag hugi frekar að eftirfarandi atriðum áður en gengið verður til samninga um verkið:
Það er mikilvægt í þessu eins og öðru að gegnsæi sé til staðar svo bæjarbúar og félagsmenn geti fengið kynningu á þessu verkefni sem og öðrum verkefnum á vegum sveitarfélagsins.
Undirritaður er tilbúinn hér eftir sem áður til að veita þessu verkefni lið í þeirri viðleitni að verkefnið muni gagnast knattspyrnunni í Eyjum sem allra best.
Með von um jákvæðar undirtektir í mikilvægu verkefni.
Ingi Sigurðsson, bæjarbúi og knattspyrnuáhugamaður
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst