Vilja íbúakosningu um minnisvarða
24. febrúar, 2024
Eldfell_helgafell_nyja_hraun_baer_IMG_2434_tms_min
Til stóð að gera göngustíg yfir hraunið að minnisvarða um eldgosið í Heimaey 1973.

Nýverið var greint frá því að minnisvarði í tilefni 50 ára gosloka í Vestmannaeyjum hafi enn ekki risið, en í ár eru 51 ár liðin frá eldsumbrotunum á Heimaey.

Fram kom á fundi bæjarráðs Vestmannaeyja í síðustu viku að málið hafi dregist og sé á byrjunarstigi. Á það eftir að fara í gegnum skipulagsferli áður en endanlegar ákvarðanir verða teknar.

Fyrir ráðinu lágu drög að samningi milli menningar- og viðskiptaráðuneytis og Vestmannaeyjabæjar um verkefnastyrk til gerðar göngustígs yfir hraun að minnisvarða um eldgosið í Heimaey 1973. Þá lágu einnig fyrir ráðinu drög að viljayfirlýsingu á milli sömu aðila vegna framkvæmda við gerð umrædds göngustígs í samvinnu við forsætisráðuneytið.

Varði eina dýrmætustu og yngstu náttúruperlu og söguheimild Vestmannaeyja

Á fundi bæjarstjórnar á fimmtudaginn sl. var lögð fram tillaga frá bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins þar sem segir að í ljósi verulegra tafa á framkvæmd og afhendingu minnisvarða í tilefni hálfrar aldar afmælis Heimaeyjargossins sem nú er liðið, yfirvofandi óafturkræfs inngrips í dýrmæta náttúru Vestmannaeyja og fyrirsjáanlegs vaxandi framkvæmdakostnaðar leggja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins til að staldrað verði við.

Ekki liggur fyrir kostnaðargreining á afmörkuðum hlutum verkefnisins auk þess sem hluti listaverksins er göngustígagerð í Eldfelli þar sem ekki liggur fyrir ásýnd, né hve umfangsmikil framkvæmdin er.

Áður en lengra er haldið er nauðsynlegt að það liggi fyrir ítarlegri kynning á verkefninu, stöðu þess, kostnaðarmat og svo framvegis.

Í framhaldi af þeirri kynningu er lagt til að málið verði sett í íbúakosningu enda varðar málefnið eina dýrmætustu og yngstu náttúruperlu og söguheimild Vestmannaeyja, segir í tillögu minnihlutans.

Málinu vísað til bæjarráðs

Í framhaldi lagði Páll Magnússon, forseti bæjarstjórnar fram tillögu þar sem lagt var til að framkominni tillögu bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksns, um minnisvarða í tilefni af 50 ára goslokaafmælis, verði vísað til bæjarráðs til frekari umfjöllunar. Eftir fundarhlé var tillaga forseta bæjarstjórnar samþykkt með 9 samhljóða atkvæðum.

Hildur Sólveig Sigurðardóttir gerði grein fyrir atkvæði sínu og las upp sameiginlega bókun bæjarfulltrúa D lista þar sem segir að undirrituð samþykki að vísa málinu til bæjarráðs en leggja áfram áherslu á að verði málinu framhaldið verði það sett í íbúakosningu.

https://eyjar.net/malid-a-byrjunarstigi/

Skoða blaðið á netinu
Forsida 12 Tbl 2024
12. tbl. 2024
Mest lesið
viðburðir
Fylgstu með

Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst