“Selirnir í húsdýragarðinum eiga betur skilið – leyfum þeim að setjast að í sjávardýraathvarfi núna strax!” Á þessum orðum hefst greinargerð þar sem fólk er beðið að skrifa undir áskorun til borgarstjóra Reykjavíkurborgar og bæjarstjóra Vestmannaeyja þess efnis að Selirnir í húsdýragarðinum verði fluttir á griðarstað í Klettsvík. Þeir sem að undirskriftasöfnuninni standa eru andvígir því að Reykjavíkurborg ætli að verja 100 milljónum króna í að stækka laug selanna í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum.
Hópurinn er með lausn við þessu öllu saman en í lok greinarinnar kemur fram eftirfarandi “Það er engin þörf fyrir það að halda sjávardýrum í dýragarði í Reykjavík þegar við höfum nú þegar fullútbúið sjávardýraathvarf í Vestmannaeyjum. En samkvæmt sjávarlíffræðingum, bæði hérlendis- og erlendis frá, er það ákjósanlegasti staðurinn á landinu fyrir slíka seli til að setjast í helgan stein. Það eru engar dýrar endurbætur sem Húsdýragarðurinn gæti ráðist í sem myndu jafnast á þau lífsgæði sem selirnir hlytu af því að fá að synda um í Klettsvík, þar sem almenningur getur virt þá fyrir sér í sínu náttúrulegu umhverfi. Þess í stað hyggst Húsdýragarðurinn verja hundruðum milljóna skattgreiðenda til þess eins að hneppa villt dýr í ánauð. Það væri bæði selunum fyrir bestu og þjónar fjárhagslegum hagsmunum borgarinnar. Við krefjumst þess að Reykjavíkurborg sjái sóma sinn í að láta flytja selina í sjávardýraathvarfið í Klettsvík.”
Enginn talað við okkur
“Mér var bent á þetta á netinu en veit ekkert meira um málið það hefur enginn reynt að ræða þetta við okkur,” sagði Audrey Padgett framkvæmdastjóri Sea Life Trust í samtali við Eyjafréttir. Audrey segir margt sem þurfi að skoða í þessu samhengi. “Þetta er ekkert útilokað, villtir selir hafa verið að synda inn og út úr kvínni án þess að hvalirnir hafi kippt sér eitthvað upp við það. Við þyrftum að fá miklu meiri upplýsingar um dýrin til að getað sagt eitthvað til um það og eins og kvíin er útbúin í dag þá er engin leið að koma í veg fyrir að selur fari þaðan út ef honum dettur það í hug. Við eigum í góðu samstarfi við Húsdýragarðinn þegar kemur að umönnun fugla en eins og ég segi þetta hefur enginn rætt þetta mál við okkur.”
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst