Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi hefur lagt fram fyrirspurn til umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um húshitunarkostnað, gjaldskrá veitufyrirtækja og breytingu á gjaldskrá hjá rafkyntum veitum.
Birgir sagði í svari til Eyjar.net í apríl sl. að fróðlegt væri að vita hvaða rök liggja að baki ákvörðun HS Veitna um að neita að birta / afhenda þessi gögn. Það skapi tortryggni að neita að afhenda þau og er fyrirtækinu ekki í hag. Að sama skapi er það fyrirtækinu ekki til framdráttar að svara ekki spurningum frá Eyjar.net.
Þá velti Birgir því fyrir sér hvernig eftirliti með gjaldskrá er almennt háttað. „Kannski er bara ekkert eftirlit? Þetta þarf að sjálfsögðu að skoða. Það er óeðlilegt að ekki ríki gagnsæi í þessum málum. Í mínum huga verður hið opinbera að tryggja að ekki sé verið að fara á svig við lög. Ég ætla að skoða þetta mál sérstaklega.“ sagði Birgir í apríl og nú hefur hann semsagt lagt fram fyrirspurn um málið á þingi.
Óskað er skriflegra svara við eftirfarandi spurningum:
1. Hvernig hefur gjaldskrá veitufyrirtækja vegna rafhitunar heimila þróast frá árinu 2019? Svar óskast sundurliðað eftir fyrirtækjum, sveitarfélögum, því hvenær gjaldskrárbreyting tók gildi og hvort um beina rafkyndingu eða rafkyntar veitur er að ræða.
2. Hvaða forsendur og gögn lágu til grundvallar hverri breytingu á gjaldskrá hjá rafkyntum veitum, t.d. í Vestmannaeyjum?
3. Hvaða rafkyntu veitur sóttu um að hækka gjaldskrá sína og hverjar ekki?
4. Hvernig hefur ráðherra í hyggju að stuðla að lægri húshitunarkostnaði á þeim landsvæðum þar sem íbúar búa við hærri húshitunarkostnað vegna rafhitunar?
5. Hversu mörg heimili hafa búið við rafhitun frá árinu 2019? Svar óskast sundurliðað eftir sveitarfélögum, árum og hvort um beina rafkyndingu eða rafkyntar veitur er að ræða.
6. Hver væri áætlaður fjárhagslegur ábati heimila sem búa við rafhitun við að tengjast hitaveitu?
7. Hversu mikil útgjöld ríkissjóðs myndu sparast ef öll heimili landsins fengju hitaveitu?
Svörin verða birt á Eyjar.net/Eyjafréttum um leið og þau berast.
https://eyjar.net/enn-bedid-eftir-gognum/
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst