Í lok janúar kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp úrskurð í máli þar sem deilt er um ákvörðun Vestmannaeyjabæjar að synja beiðni kæranda um aðgang að verðtilboðum sem bárust vegna raforkukaupa Vestmannaeyjabæjar. Sveitarfélagið heldur því fram að óheimilt sé að afhenda gögnin samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, því þau innihaldi m.a. upplýsingar um einingarverð sem ekki beri að gefa upp vegna samkeppnissjónarmiða auk þess sem um sé að ræða viðkvæmar fjárhagsupplýsingar sem óheimilt sé að birta samkvæmt lögum um opinber innkaup.
Meðal þess sem fram kemur í niðurstöðukafla úrskurðarins er að í hinni kærðu ákvörðun Vestmannaeyjabæjar var aðeins vísað til þess að óheimilt væri að afhenda gögnin samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin telur að ákvörðunin uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar eru til rökstuðnings ákvörðunar samkvæmt 1. mgr. 19. gr. upplýsingalaga. Ákvörðun sveitarfélagsins og skýringar til úrskurðarnefndarinnar frá 31. október 2024 innihalda vísanir til samkeppnissjónarmiða og laga um opinber innkaup. Úrskurðarnefndin telur að málsmeðferð Vestmannaeyjabæjar í heild sinni í málinu beri þess merki að sveitarfélagið hafi í reynd ekki framkvæmt það mat sem leiða má af 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga að skuli fara fram við mat á því hvort óheimilt sé að afhenda gögn á grundvelli ákvæðisins.
Þá gerir úrskurðarnefndin athugasemd við að þrátt fyrir þrjár ítrekanir nefndarinnar á upphaflegu erindi hennar til sveitarfélagsins hafi Vestmannaeyjabær ekki látið nefndinni í té afrit af þeim gögnum sem kæra lýtur að, svo sem skylt er að gera samkvæmt upplýsingalögum, heldur aðeins upplýsingar úr gögnunum um þau tilboð sem bárust sveitarfélaginu um raforkukaup.
Meginmarkmiðið með kæruheimildum til úrskurðarnefndarinnar er að treysta réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Hafi mál ekki hlotið efnislega umfjöllun á lægra stjórnsýslustigi, eða það afgreitt á röngum lagagrundvelli, getur stjórnvaldi á kærustigi því verið nauðugur sá kostur að heimvísa málinu til lögmætrar málsmeðferðar í stað þess að leitast við að bæta sjálft úr annmörkunum. Að öðrum kosti fengi stjórnsýslumálið ekki umfjöllun á tveimur stjórnsýslustigum eins og stefnt er að með kæruheimild. Að mati úrskurðarnefndarinnar samræmdist málsmeðferð Vestmannaeyjabæjar við töku hinnar kærðu ákvörðunar hvorki ákvæði 1. mgr. 19. gr. upplýsingalaga né rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Þá var ekki lagt fullnægjandi efnislegt mat á það hvort kærandi ætti rétt á aðgangi að umbeðnum gögnum. Með vísan til framangreinds verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og leggja fyrir Vestmannaeyjabæjar að taka málið til nýrrar meðferðar og afgreiðslu. Í því felst að beiðni kæranda verði afmörkuð við gögn í vörslu sveitarfélagsins og mat lagt á rétt kæranda til aðgangs að þeim, í heild eða að hluta, á grundvelli upplýsingalaga.
Í úrskurðarorðum segir: Beiðni um aðgang að verðtilboðum sem bárust vegna raforkukaupa Vestmannaeyjabæjar, er vísað til Vestmannaeyjabæjar til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.
Í hnotskurn: Úrskurðarnefndin segir að það þurfi að liggja fyrir lágmarksrökstuðningur fyrir stjórnsýsluákvörðun og að rökstuðningur bæjarins uppfylli ekki þau skilyrði. Því er málið sent aftur til Vestmannaeyjabæjar til að gera grein fyrir ákvörðuninni.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst