Sigurgeir B. Kristgeirsson svarar Kolbrúnu Bergþórsdóttur í Morgunblaðinu í dag. Kolbrún gagnrýndi í helgarblaði Morgunblaðsins málþóf stjórnarandstöðunnar í veiðigjalda-umræðunni á Alþingi. Sagði hún m.a. það vera sjálfsagt af forseta Íslands, Höllu Tómasdóttur, að gagnrýna þetta nýja Íslandsmet í ræðu sinni við þingsetningu og nefna að hugsanlega væri tímabært að hugleiða breytingar á þingskapalögum.
Grein Sigurgeirs Brynjars má lesa hér að neðan, en þar fullyrðir hann að í hinum nýsamþykktu lögum um hækkun veiðigjalda sé fullt af rangfærslum og villum. Hann segir málið því enn vanrætt og reifað.
Kolbrún Bergþórsdóttir pistlahöfundur Morgunblaðsins, og bókmenntagagnrýnandi í Kilju Egils Helgasonar á RÚV, gerir málþóf stjórnarandstöðunnar vegna veiðigjalda að umræðuefni í síðasta Sunnudagsmogga. Þar segir hún meðal annars að þingmenn stjórnarandstöðunnar ,,lögðu gríðarlegan metnað í að sinna málþófinu af staðfestu, eins og ruglingslegar ræður þeirra sýndu svo glöggt. Þær áttu ekkert skylt við vitsmunalegan málflutning enda voru þær eingöngu fluttar í þeim tilgangi að stunda málþóf.“
Kolbrún Bergþórsdóttir er glöggur og skemmtilegur rýnandi bóka. Af því að hafa horft á hana mér til ánægju fjalla um bækur í Kiljunni þá hef ég áttað mig á að hún fjallar um innihaldið en ekki umbúðirnar. Hún greinir skáldverkið sjálft, fléttuna, frásagnarstílinn, málfarið og efnisþráðinn. Gengur sagan upp eða ekki, er hún skiljanleg og lesanda til skemmtunar og ánægju eða ekki?
Af pistli Kolbrúnar er augljóst að hún fellur í gildru þess að fjalla um ,,bók“ sem hún hefur ekki lesið og þaðan af síður skilið. Hún hefur hlýtt á RÚV og innihaldslausa umfjöllun þess um ,,málþófið“ og tímalengd þess en ekki lesið sér til gagns sitt eigið blað, Morgunblaðið, sem fjallaði ítarlega um efnisatriði málsins.
Ég hlustaði á nokkuð af umræðum þingmanna stjórnarandstöðu um tvöföldun veiðigjalda. Að mínu áliti voru þær hvorki ruglingslegar né án vitsmunalegs innihalds. Þvert á móti. Þar fjölluðu þingmenn um óvönduð vinnubrögð við framlagningu frumvarpsins, sem var fullt af villum og rangfærslum. Þeir töluðu um skort á tíma til vandaðs undirbúnings við svo umfangsmikið mál auk þess að allar greiningar skorti. Má þar nefna skort á greiningu á áhrifum á sveitarfélög sem byggja á sjávarútvegi, áhrif á þjónustufyrirtæki í sjávarútvegi, almenn áhrif á nýsköpun sem tengist sjávarútvegi og hefur verið afar kraftmikil og síðast en ekki síst á hinn almenna starfsmann í sjávarútvegi og fyrirtækin sjálf. Þannig vöruðu þingmenn við alvarlegum afleiðingum af samþykkt frumvarpsins. Hér ætla ég að fullyrða, án þess að útskýra í þessari grein, að í hinum nýsamþykktu lögum um hækkun veiðigjalda er fullt af rangfærslum og villum. Málið er því enn vanrætt og reifað.
Í þau skipti sem stjórnarliðar tóku þátt í umræðunni sneri málflutningur þeirra að réttlæti til handa þjóðinni, leiðréttingu veiðigjalda, sem var nýyrði um skattahækkun og um meint málþóf. Afar lítil efnisleg umræða þeirra leit dagsins ljós.
Nú eru afleiðingarnar að koma í ljós. Í Eyjum misstu fjölmargir vinnuna við lokun fiskvinnslu Leo Seafood. Á Siglufirði var öllum sagt upp hjá hinu nafntogaða SR-vélaverkstæði sem þjónustaði fyrst og fremst fiskimjölsverksmiðjur og frá Ísafirði berast fréttir um uppsagnir starfsmanna hjá Ístækni vegna samdráttar í þjónustu við sjávarútveg. Kolbrún hefur vafalítið lesið þessar fréttir á síðum Moggans áður en hún skrifaði pistil sinn.
,,Vont er þeirra ránglæti, verra þeirra réttlæti“ sagði Jón Hreggviðsson í Íslandsklukku nóbelskáldsins. Bókmenntagreinandi einn telur hann fulltrúa soltins almúga gagnvart hinu ópersónulega valdi þess sem það hefur. Ég væri ekki hissa á því að þótt starfsfólki Leo Seafood hafi liðið á svipaðan hátt gagnvart stjórnvöldum og Jóni Hreggviðssyni þegar því var tilkynnt um atvinnumissi fyrir stuttu. Ég, harðsvíraður sægreifinn, saknaði þess í pistli Kolbrúnar að þar örlaði fyrir samúð með þeim sem urðu fyrir atvinnumissinum sökum skattahækkana á sjávarútveg.
Í barnaskóla lék ég mitt eina hlutverk á sviði. Jón Þeófílusson, galdramann að vestan, sem beið með Jóni Hreggviðssyni eftir aftöku sinni í dýflissunni á Bessastöðum. Að sumu leyti get ég séð mig í Jóni Þeófílussyni sem átti þá ósk heitasta að verða höggvinn en ekki brenndur. Trúlega geta ýmsir í sjávarbyggðum landsins skilið þá afstöðu Jóns Þeófílussonar í dag.
Sigurgeir B. Kristgeirsson
Höfundur er framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst