Jólasíld Vinnslustöðvarinnar í ár fékk afbragðsdóma algjörlega hlutlauss kviðdóms starfsmanna á skrifstofu VSV á blindsmökkunarsamkomu í dag. Jólasíld Ísfélagsins fékk góða dóma líka en var sett skör lægra í aðaleinkunn þegar öll stig í bragð- og skynmati voru lögð saman.
Síldarkviðdómur VSV fjallaði bæði um innihald og umbúðir. Í umbúðahlutanum hafði Ísfélagið betur og þar var munurinn býsna afgerandi. Ísfélagið flaggar fagurprentuðu jólaloki á síldardósunum sínum og í niðurstöðu kviðdóms er kvatt til þess að umbúðahönnun VSV verði betri gaumur gefinn eftirleiðis til að saman fari síld og dós eða hljóð og mynd ef menn skilja þá samlíkingu betur.
Verkunaraðferðir jólasíldarframleiðendanna eru giska ólíkar. Laukur og piparkorn einkenna VSV-síldina en rauð paprika er áberandi meðafli í Ísfélagsdósum.
Vinnslustöðin afhendir starfsmönnum sínum, hluthöfum og vildarvinum jólasíldina 8. desember. Þegar Ísfélagið hefur afhent sína síld líka geta Eyjamenn tekið upp árvissan þráð í samanburði og farið að metast um bragð og gæði.
Sigurjón Óskarsson útgerðarmaður kannast vel við þetta.
„Blessaður vertu, menn í brúnni hjá okkur og gestkomandi karlar í kaffispjall hafa löngum getað rökrætt um jólasíldina og sitt sýnist hverjum. Við höfum fengið líka ljómandi góða síld hjá Loðnuvinnslunni á Fáskrúðsfirði. Sjálfur háma ég þetta í mig allt saman!“
Sigurjón er nýkominn úr fríi á Spáni og flaug heim um Kastrupflugvöll í Kaupmannahöfn.
„Ég fékk ekki síld á Spáni en keypti í staðinn sardínur í tómat og olíu og fleira fínasta sjávarfang. Nú bíð ég spenntur eftir því að fá jólasíldina frá Binna. Er nokkuð búið að afhenda hana? Kannski ég rölti niður í Vinnslustöð og væli líka út dós handa bróður mínum vestur á Mýrum.
Annars var ljúft á Spáni, 20 til 25 stiga hiti á daginn en síðasta morguninn bara 14 stig og í raka loftinu varð manni eiginlega kalt. Þá dugar ekki annað en að taka fram síðerma skyrturnar.
Lífið gengur annars sinn vanagang hjá Spánverjum og allar verslanir eru opnar eins og venjulega. Þar er hins vegar grímuskylda á almannafæri, fólk sprittar á sér hendur og gætir sín í samskiptum til að verjast smiti.“
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst