1500 FRÆ
17. apríl, 2024

Meðmæli eru frækorn. Við erum að sá og fjárfesta til framtíðar. Við munum enn fremur uppskera eins og við sáum. Ef við sáum þeirri hegðun að frambjóðendur verði að vera þekkt andlit, með reynslu úr pólitík eða opinberri þjónustu – þá uppskerum við eftir því. Umsóknarkröfum ætti þá að breyta til samræmis hið snarasta sem og heiti starfsins. Embætti fyrir útvalda. Embætti fyrir fræga. Embætti fyrir völd og pólitík.
Sé aftur á móti embætti forseta Íslands eina sameiginlega embætti þjóðarinnar er ráðlegt að koma þannig fram við það. 1500 meðmæli eru fræ til framtíðar. Við erum að kenna okkur og börnunum okkar að við eigum öll jöfn tækifæri á Íslandi. Við eigum að sækja til að skapa nýja siði og venjur, vera óhrædd, áræðin, upplitsdjörf og aldrei gefast upp. Taka glaðlega og vel á móti þeim sem standa upp og sækja, hrósa, hvetja og veita framgöngu þeim sem hafa fyrir því. Fram fram aldrei að víkja, fram fram bæði menn og fljóð.
Frægð og frami telst ekki til hæfniþátta ein og sér og alls ekki það sem þarf til að sinna starfi forseta lýðveldisins. Fyrri störf duga skammt – starfið er ólíkt öllum öðrum og með einstakt starfsumhverfi. Það þarf ofgnótt af mennsku til að sinna starfi forseta Íslands. Það þarf opið hjarta, réttsýni, heiðarleika, glaðlyndi og þolgæði. Mannkosti.
Val er vald. Veljum að iðka lýðræði, tjáningarfrelsi og jafnræði með því að breiða út blævæng tækifæranna og hleypa fjölbreyttum röddum að til meðmæla. Fjárfestum í framtíð Íslands – uppskeran verður gjöful og okkur öllum til gæfu og giftusemi.
Mældu með frambjóðanda sem hefur ekki náð meðmælendafjölda nú þegar og sáðu fræi til framtíðar.

Sigríður Hrund Pétursdóttir

Mest lesið
viðburðir
Fylgstu með

Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst