Verslunarmannahelgin hefur verið með rólegasta móti að þessu sinni. Festir eru á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum og ungmennafélagsmóti UMFÍ á Höfn. Veðurspáin helgarinnar er góð og umferðin hefur gengið stóráfallalaust.
Flestir eru á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum, 7.000-8.000, og á ungmennafélagsmóti UMFÍ á Höfn í Hornafirði þar sem eru um 6.000. Ólafur Bragi Stefánsson, landsfulltrúi UMFÍ, segir að fólk hafi streymt inn á tjaldsvæðið fram eftir nóttu, allt hafi farið vel fram og að veður sé stórgott. Í dag verður keppt í skák, glímu og hestaíþróttum, krakkafótbolta og frjálsum íþróttum svo eitthvað sé nefnt.
Lögregla segir ölvun hafa verið talsverða í Eyjum í nótt og eitthvað um smápústra. Tveir voru teknir með fíkniefni, lítilsháttar af maríúana og amfetamín. Aðeins einn gisti fangageymslu. Samgöngur milli lands og Eyja hafa gengið hnökralaust fyrir sig og von er á nokkrum fjölda fólks til Eyja í kvöld. Friðbjörn Valtýsson í Þjóðhátíðarnefnd reiknar með að hátíðin verði stærri en í fyrra.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst