Ian Jeffs átti stórleik á miðjunni hjá ÍBV þegar að liðið sigraði Stjörnuna 4-2 í fyrstu deildinni á föstudaginn. Jeffs skoraði meðal annars tvívegis í leiknum og fyrir góða frammistöðu hefur hann hlotið nafnbótina leikmaður 15.umferðar á Fótbolta.net.
Jeffs skoraði tvívegis fyrir Eyjamenn og kom liðinu meðal annars í 3-2 með marki úr vítaspyrnu.
„Fyrra markið kom úr aukaspyrnu, ég sá glufu í veggnum og ákvað að reyna og hitti boltann fullkomlega þannig að hann fór inn. Síðara markið kom úr vítaspyrnu sem var nokkuð mikilvægt, staðan var 2-2 og það var mikilvægt að skora.“
Eyjamenn eru í fimmta sæti deildarinnar, fjórum stigum á eftir Fjölni sem eru í þriðja sætinu en þrjú efstu liðin fara upp í Landsbankadeildina.
„Þetta var mjög mikilvægur leikur, við urðum að vinna og ekkert annað ef við ætluðum að halda í vonina að fara upp,“ sagði Jeffs um leikinn á móti Stjörnunni en hann telur möguleika Eyjamanna á að fara upp vera fína. „
Ég held að við eigum góðan möguleika, öll toppliðin eiga eftir að spila gegn hvor öðru. Við verðum bara að gera betur gegn toppliðunum og halda áfram að vinna. Í næstu fjórum leikjum verðum við að reyna að ná eins mörgum stigum og við getum og síðan mættum við þremur efstu liðunum í þremur síðustu umferðunum og við munum sjá hvernig það fer.“
Jeffs kom til ÍBV á láni frá Örebro í Svíþjóð í júlí og er hann nokkuð sáttur við spilamennsku sína hingað til í sumar.
„Ég er nokkuð ánægður, eftir að ég kom aftur finnst mér við hafa spilað nokkuð vel. Mér fannst við byrja síðari hluta tímabilsins mun betur en þann fyrri. Ég er nokkuð ánægður með spilamennsku mína og liðið virðist líka vera að spila vel sem stendur.“
Þessi knái Englendingur verður hjá ÍBV út tímabilið en hann veit ekki hvernig framhaldið verður eftir það. „Ég hef ekki hugmynd. Ég er samningsbundinn Örebro í eitt ár og við munum sjá hvað gerist á næstu mánuðum,“ sagði Ian Jeffs leikmaður 15.umferðar í 1.deildinni að lokum við Fótbolta.net.
Hér er hægt að sjá fleirri sem hafa verið valdir maður umferðarinnar t.d. er hægt að lesa um Atla Heimisson ÍBV hér, en hann var valinn maður 13 umferðar af fótbolti.net
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst